Vélin heil eftir atvikið

Flugvél í eigu Air Atlanta af gerðinni 747-400.
Flugvél í eigu Air Atlanta af gerðinni 747-400.

„Á meðan málið er í rannsókn er afskaplega lítið sem ég má segja en ég get staðfest að ég man ekki eftir að sambærilegt atvik hafi komið upp hjá félaginu áður,“ segir Sigurður Magnús Sigurðsson, ábyrgðarmaður flugrekstrarleyfis hjá Air Atlanta, spurður út í atvikið sem varð þegar vél félagsins þurfti að nauðhemla til að stöðva flugtak í Sádi-Arabíu á dögunum.

Atvikið átti sér stað þann 22. apríl þegar Boeing 747-þota ís­lenska flug­fé­lags­ins Air Atlanta þurfti að snar­hætta við flug­tak er upp­götvaðist að hún var á aðkeyrslu­braut en ekki flug­braut.

Áhöfnin reynslumikil

Inntur í framhaldinu eftir því hvort svipuð atvik hafi átt sér stað hjá öðrum flugfélögum á sama flugvelli segir Sigurður Magnús svo vera.

„Jú, það hefur hins vegar gerst. Boeing 737-þota Jet Airways fer út af þarna á „taxiway“ árið 2018,“ segir hann og vitnar í atvik þar sem 141 farþegi var um borð.

Segir Sigurður Magnús áhöfnina sem var um borð hjá Air Atlanta þegar atvikið átti sér stað hafa verið þaulreynda og engan sem betur fer sakað.

Þá ræði rannsóknarnefndin í Sádi-Arabíu við alla sem að málinu komi. 

Hvorki þurfti að skipta um bremsur né dekk

Spurður að lokum út í ástand vélarinnar segir hann það gott og vélina alveg heila. 

„Dekkin sprungu ekki heldur, það var ekkert slíkt sem gerðist. Vélin stóð bara þarna í tvo daga af því að rannsóknarnefndin í Sádi vildi skoða vélina og halda henni en hún var alveg heil. Það þurfti hvorki að skipta um dekk né bremsur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert