Ráðherra svarar fyrirspurn um fyrirspurnir

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkeyj Olsen Gunnarsdóttir og Björn Leví …
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarkeyj Olsen Gunnarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar berast fjölmargar fyrirspurnir um tiltekin mál á þeirra verksviði á hverjum þingvetri. Athygli vekur að nú hafa tveir þingmenn úr röðum Pírata send fyrirspurn um fyrirspurnir. 

Á vef Alþingis má nú sjá svar Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Birni Leví Gunnarssyni um skrifleg svör ráðherra við fyrirspurnum frá alþingismönnum.

Í svarinu fer ráðherra yfir ferlið sem fylgir því að svara fyrirspurnum almennt, s.s. vöktun og skráning þeirra, úthlutun, mat á umfangi, tilkynningar um tafir, vinnslu og yfirferð. Loks hvenær hægt sé að skila svari til þingsins og verklok. 

Arndís og Björn Leví spyrja m.a. að því hversu langur tími hafi að jafnaði liðið undanfarin þrjú ár frá því að fyrirspurn hafi verið útbýtt þar til ráðuneytið sendi forseta Alþingis skriflegt svar.

Einnig er spurt um hvaða aðilar í ráðuneytinu sjái um vinnslu skriflegra svara, frágang þeirra, yfirlestur og sendingu til forseta Alþingis. Hversu langan tíma það hafi tekið hvert þessara skrefa að jafnaði undanfarin þrjú ár.

Í svari ráðherra kemur m.a. fram að gerð sé  tímaáætlun hverju sinni fyrir skil á svörum vegna innkominnar fyrirspurnar.

„Ekki er haldið aðskilið verkbókhald vegna þeirrar vinnu sem fer í að svara fyrirspurnum og eru því upplýsingar um tímalengd aðskilinna verkhluta ekki fyrirliggjandi. Eðli máls samkvæmt krefjast svör við fyrirspurnum mismikils tíma og fer það m.a. eftir því hversu víðtæk fyrirspurn er hverju sinni.

Fyrirspurnir snúa gjarnan að starfsemi stofnana og leitar ráðuneytið í þeim tilvikum til viðkomandi stofnana. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hversu mikill tími fer hjá hverri stofnun í afgreiðslu einstakra fyrirspurna,“ segir í svari ráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert