Lagaumhverfið til skoðunar eftir umfjöllun

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra tekur undir áhyggjur ljósmæðra og annarra heilbrigðisstarfsmanna af fjölgun fæðinga án aðkomu fagfólks á Íslandi. Það sé til skoðunar innan ráðuneytisins hvort bregðast þurfi við með einhverjum hætti, til að mynda með endurskoðun á lagaumhverfinu.

„Ætla má að konur sem velja þessa leið, séu ekki að finna þörfum sínum mætt í þeirri þjónustu sem boðið er upp á og því er mjög mikilvægt að hafa mismunandi valkosti í þjónustunni til að mæta ólíkum þörfum.“ 

Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherrans við fyrirspurnum mbl.is í tengslum við umfjöllun á fæðingum án aðkomu fagfólks eða „freebirth“ í gær.

Skoða hvort bregðast þurfi við

Heilbrigðisráðuneytið hefur boðað Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, embætti landlæknis og Þjóðskrá til fundar til að afla upplýsinga um umfang vandamálsins, hvort það tengist einhverri þróun og hvort bregðast megi við með einhverjum hætti. 

„Það þarf því að tryggja að hægt sé að staðfesta rétt „móðerni“ barns, þ.e. að tiltekin kona hafi fætt tiltekið barn, til að heilbrigðisstarfsmaður geti vottað að svo sé. Þetta eru nauðsynlegar ráðstafanir t.d. til að koma í veg fyrir að staðgöngumóðurþjónusta eða mansal geti þrifist hérlendis,“ segir í svari Willums auk þess sem hann áréttir að málefnið þurfi að skoða þvert á ráðuneyti og stofnanir. 

Afar brýnt að upplýsa um hvaða þjónusta sé í boði 

Eins og fram kemur hér á undan tekur Willum Þór undir áhyggjur ljósmæðra af þróuninni. Hann segir áhyggjuefni að fólki finnist þörfum þeirra ekki mætt í heilbrigðiskerfinu og undirstrikar mikilvægi þess að boðið sé upp á mismunandi valkosti í þjónustunni til að mæta ólíkum þörfum. 

„Rétturinn og ábyrgðin er foreldranna að hafna heilbrigðisþjónustu, en það er afar brýnt að það sé upplýst val um hvaða þjónusta er í boði og hvaða áhrif slík ákvörðun gæti haft á öryggi móður og barns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert