„Ofbeldi gegn eldra fólki er meinsemd í okkar samfélagi og oft er erfitt að upplýsa og greina málin sem upp koma þar sem þolendurnir eru oftar en ekki háðir ofbeldismönnunum,“ segir Hjördís Garðarsdóttir, fræðslustýra hjá Neyðarlínunni, en hún flutti erindi um ofbeldi gegn öldruðum á landsfundi Landssambands eldri borgara, LEB, í vikunni.
Að sögn Hjördísar hefur Neyðarlínan áhyggjur af þróuninni. Hún segir eðli ofbeldisins vera með ýmsum hætti, það geti verið líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt, stafrænt eða kynferðislegt. Auk þess verði þau vör við margs konar vanrækslu á öldruðu fólki. Hún segir bestu forvörnina vera umræðu og virkt nágrannasamfélag.
Hjördís segir ofbeldið gegn eldra fólki því miður staðreynd í samfélaginu.
„Hversu umfangsmikið það er vitum við ekki, því það hafa verið gerðar mjög takmarkaðar rannsóknir. Að sama skapi vitum við að aldraðir eru líklegri til að vera útsettir fyrir ofbeldi en aðrir þjóðfélagshópar og ólíklegri til að tilkynna það. Það kemur til af því að sá sem beitir ofbeldinu er oft sá sem viðkomandi er háður.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.