Aukið viðbragð í Hafnarfirði eftir árásir

Segja má að nær allt hverfið sé að leggja hönd …
Segja má að nær allt hverfið sé að leggja hönd á plóg við að veita aðstoð svo hægt sé að halda uppi öryggi barnanna. Samsett mynd/mbl.is/Eggert/Kristinn

Öryggisráðstafanir í Víðistaðaskóla hafa verið auknar til muna eftir fjögur atvik í Hafnarfirði að undanförnu þar sem maður annað hvort ógnaði eða réðst á börn sem eru um níu ára gömul. Lögreglan hefur einnig aukið eftirlit og foreldrafélag skólans ætlar að koma upp foreldravakt sem fylgir börnum í og úr skólanum. Ekki er enn vitað hvort um sama mann sé að ræða í öllum tilvikum, en mismunandi lýsingar hafa verið gefnar á geranda í málunum.

Atvikin áttu sér öll stað í Hafnarfirði; við Víðistaðatún, við Engidalsskóla, nærri Lækjarskóla og nú síðast í gær var ráðist á níu ára stúlku við Víðistaðaskóla.

Skólinn, foreldrafélagið og lögregla eru að gera allt í valdi sínu til að passa upp á öryggi barnanna í kjölfar atvikanna, segir Hrönn Bergþórsdóttir, skólastjóri Víðistaðaskóla, í samtali við mbl.is. Þá eru skólastjórnendur í nánu samstarfi við bæði bæinn og lögregluna, en hún hefur aukið eftirlit í hverfinu.

Kennarar Víðistaðaskóla hafa bæst við í gæsluna í frímínútum og hádegishléum og hafa skólastjórnendur einnig verið að læsa skólanum meira í öryggisskyni yfir daginn.

Nemendur Víðistaðaskóla hafa verið upplýstir um stöðu mála og hve mikilvægt sé að vera vakandi fyrir grunsamlegu atferli, án þess þó að hræða þau, þar sem þau flest eru nú þegar skelkuð.

Foreldravakt til að auka öryggi

Stjórn foreldrafélags Víðistaðaskóla hyggst fara af stað með foreldravakt sem mun fylgja börnum í skólann á morgnanna og jafnvel heim líka við lok dags. Hingað til hefur foreldrafélagið staðið fyrir foreldrarölti á föstudögum þar sem foreldrar eru sýnilegir börnum hverfisins ef þeim vantar aðstoð, svo þessi foreldravakt væri aukið öryggi barna í hverfinu. Þetta segir Björn Fálki Valsson, formaður foreldrafélags Víðistaðaskóla.

Nú þegar eru eftirlitsmyndavélar við skólann og aðspurður segir Björn að meðan fjölgun öryggismyndavéla geti verið tímafrekt verkefni, þá geti foreldravaktin hafist strax.

„Þetta slær alveg samfélagið,“ segir Björn um ástandið og bætir við að í morgun hafi hann ekki séð eitt einasta barn eitt á gangi í skólann. Foreldri hafi fylgt hverju barni, hvort sem er á hjóli, gangi eða í bíl.

Forgangsverkefni lögreglunnar í Hafnarfirði

Að hafa uppi á gerendum þessa atvika er forgangsverkefni okkar", segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is

Lögreglan hefur aukið eftirlit í hverfinu, ýmist með merktum og ómerktum bílum. Skúli brýnir fyrir mikilvægi þess að tilkynna lögreglu strax ef atvik á sér stað. Þá skuli fólk hringja beint á neyðarlínuna. Hingað til hafi tilkynningar um atvik borist heldur seint og eins og fram kemur í tilkynningu lögreglunnar fyrr í dag er betra að hringja á Neyðarlínuna einu sinni of oft heldur en einu sinni of sjaldan.

Mikilvægt er að tilkynna atvik strax til lögreglu", segir Skúli og brýnir jafnframt fyrir fólki að hafa samband við lögreglu ef það hefur hefur einhvern grun. Nú þurfa allir að hjálpast að en Skúli er bjartsýnn að lögreglan nái manninum. 

Fleiri en einn maður að verki?

Skúli segir málið vera snúið. Að hluta til er grunur um að um sama einstakling sé að ræða, en síðan bendir sumt á að svo sé ekki. Skúli segir vísbendingar hafa komið alveg frá upphafi um hugsanlega gerendur.

Lýsingin á manninum er sambærileg í tilkynningum til lögreglu frá fyrsta atvikinu þar sem maður ógnaði níu ára dreng og í annarri tilkynningu ógnaði maður öðrum tveimur drengjum. Þá hafi lögregla fengið tilkynningu um mann sem elti níu ára gamla stúlku við Lækjarskóla og bauð henni nammi, hafi lýsingin á honum einnig verið í takt við hinar.

Þá sé atvikið sem átti sér stað í gærmorgun frábrugðið að því leyti að það er alvarlegra og lýsingar á manninum öðruvísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert