Leyfilegt að strika yfir öll nöfn nema eitt á lista á kjörseðli

Kjósanda er heimilt að strika yfir öll nöfn frambjóðenda nema eitt á þeim lista sem hann kýs. Honum er einnig heimilt að strika yfir færri nöfn. Þá er kjósanda jafnframt heimilt að númera frambjóðendur á listanum upp á nýtt en það verður þó að vera skýrt, þ.a. ekki séu tveir frambjóðendur með sama númer, segir Gunnar Eydal, starfsmaður yfirkjörstjórnar og skrifstofustjóri borgarstjórnar. Ekki er þó leyfilegt að breyta öðrum lista en þeim sem x-að er við á seðlinum.

Gunnar segir að við talningu atkvæða séu teknir til hliðar þeir seðlar sem breytt hefur verið, með yfirstrikun eða númeringu, vafaatkvæði og auðir seðlar. Fimm manns skipa yfirkjörstjórn sem skoðar hvern og einn seðil sem vafi leikur á um. Farið er eftir ákvæðum í lögum um hvort meta skal atkvæði ógilt en að sögn Gunnars eru sumar seðlir þannig að meta þurfi þá sérstaklega. Meirihluti yfirkjörstjórnar ræður þegar ákveðið er hvort seðill sé gildur eður ei.

Gunnar segir ógilda seðla tvenns konar. Um þriðjungur þeirra sé gerður ógildur vísvitandi, t.d. með því að skrifa vísu á seðilinn eða þegar merkt er með krossi við marga lista. En tveir þriðju hlutar seðla er gerður ógildur óviljandi, segir Gunnar.

Úr kosningalögum nr. 24/2000:

„100. gr. Atkvæði skal meta ógilt:

  • a. ef kjörseðill er auður,
  • b. ef ekki verður séð við hvern lista er merkt eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru,
  • c. ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða tölumerkt nöfn á fleiri listum en einum eða skrifaðir fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil,
  • d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan,
  • e. ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill,
  • f. ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent.
101. gr. Atkvæði skal ekki meta ógilt, þó að gallað sé, ef greinilegt er hvernig það á að falla nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að orðið listi fylgi listabókstaf að óþörfu á utankjörfundarseðli, þó að heiti stjórnmálasamtaka standi í stað listabókstafs o.s.frv.
Lista í kjördæmi telst atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á.“

Kosningalög

Leiðbeiningar fyrir kjósendur á kjörfundi

Sýnishorn kjörseðla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert