Impregilo mun líklega kæra mótmælendur við Kárahnjúka

Mótmæli spreyjuð með lakkúða á stein á Kárahnjúkum.
Mótmæli spreyjuð með lakkúða á stein á Kárahnjúkum. mbl.is

Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impregilo á Íslandi, segir að fyrirtækið muni fara fram á aukna löggæslu við Kárahnjúka í kjölfar þess að mótmælendur komust inn á vinnusvæði fyrirtækisins í nótt og ollu þar skemmdum á tækjum. Aðspurður um hvort fyrirtækið muni kæra þá einstaklinga sem hlut eiga að máli segir Ómar að svo hljóti að vera. „Það sem við munum gera í framhaldinu er að við munum fara fram á það við íslensk stjórnvöld að þau sjái til þess að lögbrot séu ekki framin á Íslandi. Það er ekki í okkar verkahring að stöðva slíkt,“ segir Ómar.

„Það vantar klárlega aukna löggæslu. Þarna er um að ræða skipulagðan hóp mótmælenda sem er mjög einbeittur í því að vilja valda tjóni, hvort sem það er á störfum manna, tækjum eða tólum,“ segir Ómar. „Það er ekki nóg að hafa lítinn hóp manna til að bregðast við, það þarf að hafa fleiri,“ segir Ómar og bætir því við að fyrirtækið muni fara fram á aukna löggæslu í samráði við Landsvirkjun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert