Vildi ekki að Seðlabankinn gæti dregist inn í pólitísk þrætumál

Ingibjör Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjör Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Sverrir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir ástæðuna fyrir þeim breyttu högum sínum, sem urðu til þess að hún ætlar að fara fram á við Alþingi á morgun að hún verði leyst undan setu í bankaráði Seðlabanka Íslands vera þá, að hún hafi verið kosin formaður Samfylkingarinnar og sitji á þingi. „Ég tel mjög mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði bankaráðsins og vildi ekki að bankinn gæti dregist inn í pólitísk þrætumál,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg Sólrún sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að ný lög sem sett voru um bankann árið 2001 hafi stuðlað að því að draga úr pólitískum áhrifum á starfsemi hans. Hlutverk bankaráðs hafi jafnframt verið breytt á þann veg, að það hafi ekki ákvörðunarvald heldur einungis eftirlitsskyldu gagnvart forsætisráðherra. Hafi hún því séð mótsögn í því að vera formaður Samfylkingarinnar og sitja jafnframt í bankaráði Seðlabankans.

Ingibjörg tilkynnti bankaráðinu um ákvörðun sína í síðustu viku og hefur auk þess skrifað forseta Alþingi bréf sama efnis, sem lagt verður fyrir á fundi Alþingis á morgun.

Samfylkingin hefur mælt með því að Jón Þór Sturluson, hagfræðingur, taki sæti Ingibjargar í bankaráði. „Með því að tilnefna mann með þessa menntun viljum við auka trúverðugleika Seðlabankans,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert