Lögreglan á Akureyri leitar brennuvargs

eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Engan sakaði þegar eldur kom upp í tvíbýlishúsi á Akureyri á sjötta tímanum í gærmorgun. Íbúar voru komnir út þegar slökkvilið bæjarins mætti á vettvang en um tíma var talið að enn væri maður inni – hann reyndist hins vegar hafa yfirgefið húsið um nóttina. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði var töluverður eldur á miðhæð hússins, sem er stórskemmt, en talið er að eldurinn hafi kviknað í mannlausum kjallaranum.

Eldsvoðinn var einn af fimm sem urðu í bænum með skömmu millibili í gær, á fremur litlu svæði, og jafnvel er talið að um íkveikju sé að ræða í öllum tilvikum. Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins og leitar enn brennuvargsins. Þeir sem kunna að hafa orðið varir við mannaferðir á svæðinu, á milli hálfsex og sjö, eru vinsamlegast beðnir um að snúa sér til lögreglunnar.

Enn hefur ekki verið staðfest að kveikt hafi verið í íbúðarhúsinu, sem stendur við Lundargötu, en að sögn lögreglu er ljóst að í öðrum tilvikum var um íkveikju að ræða.

Þrír gámar og ferðasalerni

Eldarnir voru mismiklir og sá fyrsti kveiktur um klukkan hálfsex, í gámi við Hótel Norðurland. Að sögn slökkviliðs gekk slökkvistarf vel en áður en því lauk hafði þegar verið tilkynnt um eld í ruslagámi við Kaffi Akureyri, mínútu síðar barst enn ein tilkynning um eld í gámi, þá við Skipagötu og þurfti að kalla út aukavakt til þess að aðstoða við slökkvistarfið. Rétt eftir klukkan sex var svo tilkynnt um brunann í tvíbýlishúsinu og á meðan slökkvilið barðist við eldinn var tilkynnt að ferðasalerni logaði í miðbænum.

Slökkviliðsmenn á Akureyri muna vart aðra eins hrinu af útköllum en aðfaranótt sunnudags og fram á morgun voru tíu útköll.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert