Ók beltagröfu á malbikuðum vegi

Stjórnandi beltagröfu var stöðvaður við akstur á malbikuðum akbrautum í Innri-Njarðvíkurhverfi Reykjanesbæjar en nokkur ummerki voru á yfirborði akbrauta eftir belti gröfunnar.

Lögreglan segir, að stjórnandinn megi búast við kæru vegna ólöglegs aksturs slíkrar vinnuvélar á opinberum vegum og vegna skemmda á yfirborði akbrauta í hverfinu. Hann hafði fengið gröfuna að láni og ætlaði að nota hana til jarðvegsframkvæmda í baklóð heimilis síns.

Þá var ökumaður kærður í gær fyrir akstur utan vega út við Reykjanesvita. Hafði sá ætlað að stytta sér leið yfir opið svæði en sökk í blautan jarðveginn og þurfti að kalla til björgunarsveitina Þorbjörn frá Grindavík til að losa bifreiðina úr festunni.

Einn farþegi á leið í flug var handtekinn í flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna ölvunar og óspekta. Hann svaf úr sér áfengisvímuna í fangaklefa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert