Landhelgisgæslan mun fylgjast með ferðum skips Sea Shephard

Ekki fengust upplýsingar um hvort elsta varðskip LHG, Óðinn sem …
Ekki fengust upplýsingar um hvort elsta varðskip LHG, Óðinn sem var smíðaður árið 1959, taki þátt í aðgerðum gegn skipi Sea Shephard. Mynd/SV

Landhelgisgæslan myn fylgjast náið með ferðum skips samtakanna Sea Shephard Farley Mowat en skipið lagði af stað frá Ástralíu áleiðis til Íslands í dag, að sögn Pauls Watsons, leiðtoga samtakanna. Upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir stofnunina vera viðbúna komu skipsins en vildi ekki gefa upp í hverju sá viðbúnaður fælist.

„Það er um mánuður til stefnu og við erum að sjálfsögðu viðbúin komu skipsins og auðvitað verður brugðist við lögbrotum. Menn gefa líka tilefni til þess að gripið verði til aðgerða með fjandsamlegum yfirlýsingum," sagði Dagmar Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar en vildi ekki gefa upp hverjar aðgerðirnar yrðu.

Paul Watson var vísað úr landi þegar hann reyndi að koma hingað til lands í janúar árið 1988. Þá kom fram, að brottvísunin hefði það í för með sér að Watson væri framvegis óheimilt að stíga fæti á íslenska grund og ríkisstjórnir annarra Norðurlanda gátu ákveðið að bannið skyldi einnig gilda í ríkjum þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert