Mátti loka afleggjaranum

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir brot á vegalögum með því að láta verktaka grafa í sundur veg á landsspildu í Grímsnes- og Grafningshreppi og reka niður þrjú járnrör í skurðinn. Þannig lokaðist vegurinn og eigandi annarrar landsspildu gat ekki ekið eftir honum.

Í dómnum segir, að ágreiningslaust sé, að vegurinn, sem nefndur er Rimamóavegur, sé einkavegur í skilningi vegalaga og að viðhald vegarins sé á hendi sumarbústaðaeigenda við Rimamóaveg. Starfandi hafi verið félag sumarbústaðaeigenda í Þórisstaðalandi. Landeigendur hafi greitt árgjald til félagsins sem standi straum af sameiginlegum kostnaði, svo sem viðhaldi vegarins.

Stjórn félagsins tók þá ákvörðun á árinu 2005 að loka fyrir umferð sem væri óviðkomandi sumarbústaðahverfinu og færi áfram upp svokallaðan slóða í átt að landi því sem Íþróttabandalag Reykjavíkur átti. Sannað þyki, að sá sem var ákærður í málinu, hafi verið að vinna í umboði stjórnar Félags sumarbústaðaeigenda. Hann hafi einnig neitað því að hafa grafið umrædda skurði í þeim tilgangi að skemma eða eyðileggja veginn heldur hafi skurðurinn verið grafinn í þeim tilgangi að setja hlið á veginn svo hægt yrði að loka honum. Ekkert hafi komið fram, hvorki í gögnum málsins né undir rekstri þess, sem hnekki þeirri fullyrðingu.

Þá liggi fyrir að Rimamóavegur í landi sumarbústaðaeigenda í Þórisstaðalandi sé í eigu þeirra aðila sem standa að félaginu og af öllu framansögðu sé ljóst að verið hafi verið að vinna framkvæmdir á einkavegi, sem á engan hátt brjóti gegn vegalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert