Sigurður leiðir lista Miðflokksins í Hafnarfirði

Tveir efstu menn á lista Miðflokksins í Hafnarfirði: Sigurður Þ. …
Tveir efstu menn á lista Miðflokksins í Hafnarfirði: Sigurður Þ. Ragnarsson og Bjarney Grendal Jóhannesdóttir.

Sigurður Þ. Ragnarsson, veður- og jarðvísindamaður, skipar oddvitasæti lista Miðflokksins í Hafnarfirði fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í maí. Bjarney Grendal Jóhannesdóttir grunnskólakennari er í öðru sæti listans.

Almennur félagsfundur Miðflokksins í Hafnarfirði samþykkti tillögu uppstillinganefndar um framboðslistann.

„Við erum ákaflega stolt af þessum sterka lista sem við bjóðum fram hér í Hafnarfirði,“ er haft eftir Sigurði í fréttatilkynningu. „Hafnarfjörðurinn er sterkt og samheldið samfélag byggt á grónum merg og við viljum byggja það upp til framtíðar á þeim grunni,“ segir Sigurður. „Við leggjum höfuðáherslu á að finna skynsamlegar lausnir á þeim áskorunum sem Hafnarfjarðarbær stendur frammi fyrir og viljum fá bæjarbúa og önnur framboð með okkur í uppbyggilega rökræðu um þær. Við göngum því óbundin til kosninganna í vor en erum tilbúin að starfa með öllum sem vilja vinna með okkur að skynsamlegum málum sem bæta hag bæjarbúa. Við munum alltaf setja málefnin í forgang og hlökkum til að kynna stefnumál okkar á næstu vikum.“

Þriðja sæti listans skipar Jónas Henning fjárfestir, það fjórða Gísli Sveinbergsson málarameistari, það fimmta Arnhildur Ásdís Kolbeins viðskiptafræðingur og það sjötta Elínbjörg Ingólfsdóttir öryggisvörður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert