Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hættir

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var nýlega.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var nýlega. mbl.is/Árni Sæberg

Andri Óttarsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá haustinu 2006, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann hafi í samráði við Bjarna Benediktsson, formann flokksins, ákveðið að láta af því starfi.

Andri áréttar að hann hafi ekki átt frumkvæði að því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu og ekki tekið ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku.

Yfirlýsing Andra fer í heild sinni hér á eftir:

„Mikill styr hefur staðið um styrkveitingar FL Group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins í lok árs 2006. Ég hóf störf fyrir Sjálfstæðisflokkinn í október 2006 og starfaði samhliða fráfarandi framkvæmdastjóra til áramóta 2006/2007 en þá tók ég tók formlega við stöðunni.

Af gefnu tilefni vegna ofangreindra styrkveitinga vil ég að eftirfarandi komi fram:

  • Ég átti ekki frumkvæði að því að haft var samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu.
  • Ég tók ekki ákvörðun um að veita styrkjunum viðtöku.

Þrátt fyrir þetta og þær skýringar sem komu fram í yfirlýsingu fyrrverandi formanns flokksins er það mitt mat að við núverandi aðstæður þjóni það best hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að ég láti af störfum sem framkvæmdastjóri hans þar sem mikilvægt er að leita allra leiða til að skapa traust og frið um flokksstarfið. Af þeim sökum hef ég boðist til að víkja úr stöðu minni.

Þetta geri ég í trausti þess að Sjálfstæðisflokkurinn, flokksmenn og frambjóðendur, fái sanngjarnt tækifæri og ráðrúm til að vinna stefnu sinni og hugsjónum brautargengi í komandi kosningum.

Ákvörðun mína hef ég í dag borið undir formann flokksins og höfum við á þessum forsendum orðið ásáttir um að ég láti af störfum.

Um leið og ég óska Sjálfstæðisflokknum og forystu hans alls hins besta þakka ég þeim hundruðum og þúsundum manna sem unnið hafa ötult starf fyrir og með flokknum á síðustu árum. Samskiptin við grasrót flokksins hafa veitt mér mikla ánægju og gert mig stoltan af því að tilheyra þessari stærstu pólitísku hreyfingu landsins. Mér var sannur heiður að sinna starfi framkvæmdastjóra flokksins þennan tíma þótt ekki hafi það verið auðvelt og vil ég þakka því færa og dugmikla fólki sem unnið hefur með mér á skrifstofu flokksins fyrir gott og óeigingjarnt starf.

Vissulega er þessi ákvörðun þungbær fyrir mig persónulega en hún er léttvæg í samanburði við hagsmuni þá sem eru í húfi. Það er einlæg von mín að þessi ákvörðun verði til þess að friður skapist. Ég bind miklar vonir við nýkjörna forystu flokksins og hlakka til að leggja mitt af mörkum til að stuðla að framgangi sjálfstæðisstefnunnar sem almennur flokksmaður á öðrum vettvangi.

Reykjavík, 10. apríl 2009, föstudaginn langa,

Andri Óttarsson"

Andri Óttarsson
Andri Óttarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent, Kosningar — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Mánudaginn 28. október