Njörður veiddi fyrstu hrefnuna

Búið er að veiða eina hrefnu við landið frá því að hrefnuveiðiskipin héldu út á miðin um helgina. Njörður KÓ veiddi fyrstu hrefnuna um fimmleytið í dag, en báturinn er einn þriggja hrefnuveiðibáta sem Hafrannsóknastofnunin hefur gert samning um að annist töku dýranna. Guðmundur Haraldsson skipstjóri á Nirði sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að dýrið, sem væri lítið, væri komið um borð. Hann sagði að skipverjar hefðu ekkert aðhafst fyrr en erlendir fréttamenn, sem fylgdu skipinu eftir, hættu eftirför í morgun.

"Aflífun dýrsins með hinum nýja sprengiskutli gekk hratt og vel fyrir sig. Krufning og sýnataka fer fram á hafi úti," segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun. Þá kemur fram að að mælingar hafi verið gerðar og sýni tekin til margvíslegra rannsókna, enda sé markmið rannsóknanna mjög fjölþætt. "Auk athugana á magainnihaldi og orkubúskap sem tengjast megin markmiði rannsóknanna, þ.e. fæðuvistfræði hrefnu á Íslandsmiðum, fór fram umfangmikil sýnataka vegna rannsókna á viðkomu hrefnu, erfðafræði, sníkjudýra- og meinafræði, ásamt rannsóknum á magni lífrænna og ólífrænna mengunarefna í ýmsum vefjum hrefnunnar."

Guðmundur á Nirði segir að leiðinlegt veður sé á þeim slóðum sem skipið er nú statt og verði haldið til hafnar í Ólafsvík í kvöld. Stefnt er að því að halda út í fyrramálið. Sigurbjörg, sem er eitt þeirra skipa sem eru á hrefnuveiðum, hélt til Vestmannaeyja í dag vegna veðurs og bilunar en ætlar líklega út aftur í kvöld.

Halldór Sigurðsson, sem er þriðja hrefnuveiðiskipið, hefur ekki veitt hrefnu þar sem fréttamaður fylgir skipinu eftir á Nökkva. Sverrir Halldórsson leiðangursstjóri á Halldóri Sigurðssyni sagðist hafa orðið var við nokkrar hrefnur í dag en engin hrefna yrði veidd á meðan Nökkvi væri í nálægð við skipið.

Alls verða veiddar 38 hrefnur í ágúst og september 2003 vítt og breitt um íslenska landgrunnið, en veiðinni er dreift í samræmi við rannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar. Talið er að um 43 þúsund hrefnur séu á íslenska landgrunninu og að þær éti á ári hverju í kringum tvær milljónir tonn af fæðu á svæðinu, þar af ein milljón tonn af fiskmeti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert