Ingibjörg Sólrún: Bar að verja samstarf R-listans

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í kvöld, að það sé með miklum ólíkindum að þátttaka hennar á lista Samfylkingar hafi orðið til þess að henni sé ekki gert kleift að sinna áfram því starfi sem kjósendur í Reykjavík kusu hana til. Hún telji hins vegar að við þær aðstæður sem nú hafi skapast beri sér fyrst og fremst að verja áframhaldandi samstarf Reykjavíkurlistans og koma um leið í veg fyrir að sjálfstæðismönnum verði opnuð leið að valdastólum í borginni.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Yfirlýsing
Á fundi borgarstjórnarflokks Reykjavíkurlistans í kvöld, 29. desember 2002, tilkynnti ég þá ákvörðun mína að segja starfi mínu sem borgarstjóri í Reykjavík lausu. Ég hef komist að þessari niðurstöðu í kjölfar harkalegra viðbragða samstarfsflokka Samfylkingarinnar í Reykjavíkurlistanum, einkum Framsóknarflokks, við þeirri ákvörðun minni að þiggja boð um 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Kröfum um að ég hætti við þátttöku í landsmálapólitík eða víki sæti ella sem borgarstjóri hefur verið haldið til streitu þrátt fyrir tillögur af minni hálfu til sátta. Um leið hefur samstarfi um Reykjavíkurlistann verið stefnt í hættu.

Fjölmörg dæmi eru um samhliða þátttöku stjórnmálamanna á vettvangi borgarmála og landsmála. Engar hömlur voru lagðar á mig í því efni né aðra borgarfulltrúa í samstarfsyfirlýsingu Reykjavíkurlistans. Það er því með miklum ólíkindum að þátttaka mín á lista Samfylkingar hafi orðið til þess að mér sé ekki gert kleift að sinna áfram því starfi sem kjósendur í Reykjavík kusu mig til. Ég tel hins vegar að við þær aðstæður sem nú hafa skapast beri mér fyrst og fremst að verja áframhaldandi samstarf Reykjavíkurlistans og koma um leið í veg fyrir að sjálfstæðismönnum verði opnuð leið að valdastólum í borginni.

Eftir viðræður mínar við forystumenn þeirra flokka sem að Reykjavíkurlistanum standa hef ég ástæðu til að ætla að áframhaldandi samstarf þeirra sé tryggt út kjörtímabilið ef ég vík úr starfi borgarstjóra. Ég hef því ákveðið að segja því lausu frá og með 1. febrúar næstkomandi. Ég mun að sjálfsögðu starfa áfram sem borgarfulltrúi og beita mér samtímis af fullu afli sem frambjóðandi Samfylkingarinnar í komandi kosningum.

Reykjavík, 29. desember 2002
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
borgarstjóri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert