Lífsgæði mest í Svíþjóð og Danmörku en Ísland í 8. sæti

Lífsgæði eru mest í heimi í Svíþjóð og Danmörku samkvæmt vísitölu félagslegrar þróunar (WISP) sem fræðimenn við Pensylvaníuháskóla í Bandaríkjunum og Umeåháskóla í Svíþjóð hafa reiknað út. Ísland er í áttunda sæti samkvæmt henni.

Í vísitölunni er tekið m.a. tillit til lífslíkna fólks, umhverfisgæða, réttaröryggis og jafnréttismála. Noregur og Finnland koma á hæla Svíþjóð og Danmörku, því næst Lúxemborg, Þýskalandi, Austurríki og Ísland. Efsta tuginn fylla svo Ítalía og Belgía.

Í næstu sætum koma svo suður-evrópsk ríki Evrópusambandsins (ESB) og svo ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu. Bandaríkin eru ekki nema í 27. sæti þótt þjóðarframleiðsla (GDP) þar sé miklu meiri en í flestum ríkjum sem ofar eru. Eru Bandaríkin á eftir löndum eins og Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Búlgaríu.

WISP-talan er ólík GDP-mælikvarðanum á velferð að því leyti að hún tekur tillit til félagslegra, menningarlegra og pólitískra þátta. Þannig tekur WISP tillit til lífslíkna fólks og ástand heilbrigðismála, umhverfisgæða bæði hvað náttúruna varðar og vinnustaði, réttaröryggis og jafnréttismála, frítíma, menntunarstigs o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert