Nokkrar skemmdir eftir "óhappaskot" í samkvæmi á Húsavík

Skotið var úr riffli á Húsavík laust fyrir klukkan níu í gærmorgun, inni í miðri íbúðarbyggð á Baughóli. Enginn særðist en bifreið og húsgluggi skemmdust nokkuð í skotinu. Fjölskylda var inni í húsinu sem kúlan, sem er svokölluð sprengikúla, lenti á. Að sögn lögreglunnar á Húsavík var skotið „óhapp" en lögregla var við vettvangsrannsókn í allan gærdag.

Maður inni í húsinu heyrði hvell, leit út um gluggann og sá þá að rúða í bíl hans var brotin og kallaði hann lögreglu til. Ennfremur brotnaði ytra glerið í glugganum, þar sem kúlan endaði ferð sína, en glugginn er í svefnherbergi í húsi mannsins. Enginn svaf sem stendur í herberginu, að sögn lögreglu. Þegar lögregla kom á vettvang sá hún fljótt að byssukúla hefði valdið skemmdunum. Hún segir að riffillinn, sem skotið var úr, hafi verið nokkuð öflugur. Skotið var óhapp en gestur í gleðskap komst í tæri við skotvopnið. Að sögn lögreglu virðist sem viðkomandi hafi dottið á skotvopnið með þeim afleiðingum að skot hafi hlaupið úr byssunni. Ólöglegt er vera með hlaðið skotvopn í þéttbýli. Skemmdir eru töluverðar vegna þessa, ekki síst á bifreiðinni, að sögn lögreglu. Enginn var nærri utandyra þegar skotið reið af. Margir heyrðu þó hvellinn eða vöknuðu upp við hann án þess að átta sig á því hvað gerst hafði, að sögn lögreglu. Rannsókn málsins er lokið og telst það upplýst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert