Hádegisölið á undanhaldi í Danmörku

Nýleg rannsókn í Danmörku hefur leitt í ljós, að sá siður að skola niður hádegisverðinum með köldum bjór er á undanhaldi í landinu. Aðeins um 11% Dana segjast mega vinnu sinnar vegna fá sér bjór í hádeginu en árið 2002 var þetta hlutfall 56%.

Morten Wiberg, talsmaður dönsku lýðheilsustofnunarinnar sagði að sú afstaða nyti nú almenns skilnings, að áfengi og vinna ættu ekki saman.

„Starfsmenn vita að þeir þurfa að standa sig og bjór hægir á afköstunum. Vinnuveitendur vita einnig að starfsmennirnir skila betra verki og færri slys verða á vinnustöðum," sagði hann.

Talsverður munur er á atvinnugreinum. Þannig segjast 27% byggingarverkamanna geta fengið sér öl í hádeginu en árið 2002 var það hlutfall 82%. Í menntakerfinu segjast aðeins 3% geta leyft sér að drekka bjór í hádeginu en hlutfallið var 41% fyrir fjórum árum.

Bjórneysla hefur dregist hægt en stöðugt saman í Danmörku á undanförnum áratugum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert