Enska landsliðið í handknattleik æfir í Danmörku

Mikill hugur mun vera í áhugamönnum um handknattleik í Englandi um þessar mundir þótt ekki hafi landslið þeirra í íþróttinni af miklum afrekum að státa. Nú hefur enska landsliðið í handknattleik karla boðað komu sína í æfingabúðir til Danmerkur hvar það hyggst vera við æfingar í íþróttamiðstöðinni í Skærbæk, eftir því sem JydskeVestkysten greinir frá.

Þar sem Englendingar verða gestgjafar Ólympíuleikanna árið 2012 verða þeir að koma saman handknattleikslandsliðið í karla og kvennaflokki, en gestgjafara senda lið til þátttöku í öllum keppnisgreinum Ólympíuleika. Þar af leiðandi hefur enska íþróttasambandið blásið til sóknar á handknattleikssviðinu og eru æfingabúðirnar í Danmörku einn liðurinn í þeirri sókn. Enska og skoska landsliðið í handknattleik karla tóku þátt í sérstöku móti sem Handknattleikssamband Evrópu stóð fyrir á síðasta ári þar sem nokkrar lítt þekktar handknattleiksþjóðir komu saman og reyndu með sér. Enska liðið reið ekki feitum hesti frá því móti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert