Það er gaman að spila á móti Val

Logi Tómasson fagnar fyrra marki sínu gegn Val í sumar …
Logi Tómasson fagnar fyrra marki sínu gegn Val í sumar sem var stórglæsilegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er gaman að koma inn á gegn þeim,“ sagði glaðbeittur Logi Tómasson þegar mbl.is tók hann tali eftir að hann hafði tryggt Víkingi R. stig með jöfnunarmarki á 88. mínútu gegn Val, 2:2, þegar liðin mættust í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Logi er ekki ókunnur því að slá í gegn á móti Val, því margir muna eftir draumamarki hans þegar liðin mættust í upphafsleik Íslandsmótsins á föstudagskvöldi í apríl. Logi klobbaði þá báða miðverði Vals áður en hann lúðraði boltanum upp í samskeytin. Í kvöld skoraði hann jöfnunarmarkið dramatíska með hörkuskoti úr teignum.

„Ég sá að fyrirgjöfin var að koma, Nikolaj [Hansen] fékk boltann í lappir og ég öskraði á hann. Ég náði að taka eina, tvær snertingar og fann svo glufu á milli og náði að setja hann í hornið,“ sagði Logi, en hann fagnaði skiljanlega vel og innilega enda eru mörkin tvö gegn Val hans einu í sumar.

„Það er langt síðan fyrra markið kom og það er gaman að fagna aftur á móti Val,“ sagði Logi og viðurkenndi að hafa verið með fyrra markið í huga þegar hann kom inn af bekknum í síðari hálfleik í kvöld.

„Já, mig langaði að skora aftur og sýna líka að ég eigi að vera í liðinu. Það er alltaf gott að geta hjálpað liðinu,“ sagði Logi, en jöfnunarmarkið var ekki síður mikilvægt því það kom Víkingi upp úr fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert