Ætlum okkur sigur, sama hvaða lið kemur hingað

Guðlaugur Victor Pálsson í leik gegn Andorra í síðasta mánuði.
Guðlaugur Victor Pálsson í leik gegn Andorra í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, er nokkuð sáttur við að Ísland mæti Rúmeníu á heimavelli í undanúrslitum umspils um sæti í lokakeppni EM á næsta ári. Umspilið fer fram í mars og mætir sigurliðið annað hvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppninni. 

„Mér líst vel á þetta. Ég var ekki að vonast eftir annarri þjóðinni frekar en hinni,“ sagði Guðlaugur í samtali við mbl.is. Ísland gat mætt Ungverjalandi eða Rúmeníu.

„Bæði lið sýndu fína hluti í undankeppninni. Ég skoðaði riðilinn hjá Rúmeníu eftir dráttinn og þeir stóðu sig ágætlega. Þeir eru ellefu sætum ofar en við á heimslistanum.“

Vona að við spilum á Íslandi

„Eins og er veit ég ekki of mikið um liðið en þjálfarateymið mun fara mjög ítarlega í að læra á það og við verðum með nóg af upplýsingum um þá áður en við mætum þeim,“ sagði miðjumaðurinn, sem hefur spilað sem hægribakvörður í síðustu landsleikjum. 

Hann segir mikilvægt að leikurinn fari fram hér á landi, en óvissa ríkir um ástand Laugardalsvallar fyrir leikinn. Ef allt fer á versta veg, þarf að spila leikinn erlendis. 

Guðlaugur Victor í baráttu við Blaise Matuidi í leik Íslands …
Guðlaugur Victor í baráttu við Blaise Matuidi í leik Íslands og Frakklands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vona að við spilum heima á Íslandi. Það er búin að vera umræða um hitt og þetta en það er mikilvægt að við spilum heima fyrir framan okkar stuðningsmenn og þá hef ég ekki miklar áhyggjur af við munum ekki sigra þá.“

Hann segir leikmenn landsliðsins ekki hafa rætt sín á milli hvort þeir vildu heldur Ungverjaland eða Rúmeníu. 

„Ekki þannig. Ég var í það minnsta ekki að tala um það við strákana. Við fáum það sem við fáum og hugarfarið hjá okkur er þannig að við ætlum okkur sigur, sama hvaða lið það er sem kemur hingað heim til okkar.“

Komist íslenska liðið á EM, bíður þeirra m.a Þýskaland í riðlinum. Guðlaugur Victor leikur með Darmstad þar í landi, en hann segir of snemmt að velta sér upp úr því. 

„Þýskaland er með geggjað lið og það væri auðvitað gaman en það er allt of snemmt að tala um það núna. Við einbeitum okkur að Rúmeníu núna og svo næsta leik í umspilinu,“ sagði Guðlaugur Victor. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert