Baráttusigur Tindastóls í Garðabæ

Gwendolyn Mummert úr Tindastóli og Andrea Mist Pálsdóttir úr Stjörnunni …
Gwendolyn Mummert úr Tindastóli og Andrea Mist Pálsdóttir úr Stjörnunni eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan tók á móti Tindastól í Garðabænum í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag. Tindastóll var án stiga fyrir leik kvöldsins.

Stjörnukonur áttu nokkrar hornspyrnur og löng innköst í upphafi leiks og á 10. mínútu fékk Esther Rós Arnarsdóttir gott skallafæri eftir aukaspyrnu Andreu Mistar Pálsdóttir en góður skalli hennar var meistaralega varinn af Monicu Wilhelm í marki Stólanna.

Tindastóll komst yfir á 21. mínútu með marki Jordyn Rhodes. Rhodes stangaði boltinn milli fóta Erin Mcleod eftir góða fyrirgjöf Laufeyjar Hörpu Halldórsdóttur.

Tindastóll varðist afar vel í fyrri hálfleiknum og átti hættulegar skyndisóknir en Stjarnan átti í erfiðleikum með að skapa sér teljandi færi þrátt fyrir að vera töluvert meira með boltann. Staðan í hálfleik 0:1 fyrir gestina.

Síðari hálfleikur byrjaði á sömu nótum og sá fyrri spilaðist. Stjarnan dældi löngum innköstum og hornspyrnum inn á teig gestanna án þess að skapa sér teljandi færi og Tindastóll ógnaði með vel útfærðum skyndisóknum. Caitlin Cosme var óheppin að jafna ekki metin fyrir Stjörnuna eftir hornspyrnu en Monica sá við henni.

Þegar leið á leikinn fjölgaði skyndisóknum og færum Tindastóls og Erin Mcleod átti stórleik í marki Stjörnunnar.

Hún kom þó engum vörnum við á annarri mínútu uppbótartíma þegar Rhodes bætti við öðru marki sínu og Stólana eftir fyrirgjöf Hugrúnar Pálsdóttur. Skömmu áður hafði Anna María Baldursdóttir,fyrirliði Stjörnunnar, verið borin af velli eftir harkalegt höfuðhögg sem hún hlaut í samstuði við Rhodes, nokkrar tafir urðu á leiknum af þeim völdum.

Tindastóll vann að lokum nokkuð sanngjarnan sigur, 2:0 og fyrstu stig Stólanna orðin að veruleika en Stjarnan er með þrjú stig eftir þrjá leiki.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 0:2 Tindastóll opna loka
90. mín. Uppbótartími er 6 mínútur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert