Of stórt tap miðað við gang leiksins

Mikil barátta einkenndi leik Skagamanna í kvöld, sem máttu þó …
Mikil barátta einkenndi leik Skagamanna í kvöld, sem máttu þó bíða 4:1 gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eyþór

Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagamanna, segir að ósigurinn í kvöld hafi verið aðeins of stór miðað við gang leiksins, en lið hans mátti þá lúta í lægra haldi, 4:1, fyrir Stjörnumönnum í 5. umferð Bestu deildar karla.

„Við byrjuðum leikinn vel, komumst í 1:0 og fengum svo dauðafæri til að komast í 2:0,“ segir Jón Þór um upphaf leiksins, en Skagamenn voru nokkuð sprækari fyrstu mínúturnar. „En svo förum við að detta svolítið langt niður og svolítið fljótt niður,“ segir hann.

Vendipunktur varð á leiknum snemma í seinni hálfleik þegar Arnór Smárason skaut rétt yfir slána úr aukaspyrnu, en Stjörnumenn komust svo yfir strax í næstu sókn og bættu við þriðja markinu skömmu síðar. „Við héldum áfram að skapa okkur færi í leiknum sem við náðum ekki að nýta okkur,“ segir Jón Þór, en hann gerði þrefalda breytingu á liði sínu í stöðunni 2:1.

„Við breyttum aðeins til, og þriðja markið þeirra kemur út frá því, það riðlast okkar leikur og menn gleyma sér, og þá er staðan orðin erfið. En fjórða markið drepur okkar, og þar fannst mér Örvar Eggertsson vera brotlegur og toga Ármann niður áður en hann skallar fyrir markið,“ segir Jón Þór, en hann fékk gula spjaldið fyrir mótmæli eftir markið.

Jón Þór segir að bæði dómari leiksins og 4. dómarinn hafi verið vel staðsettir líkt og hann, og því hafi það komið sér á óvart þegar ekki var flautað brot á Örvar. „Maður skilur ekki neitt í neinu þegar maður sér hlutina vel sjálfur þegar þessir menn með sama sjónarhorn sjá það ekki,“ segir hann um atvikið.

-En þið hljótið að geta tekið eitthvað út úr frammistöðunni í næsta leik? „Jú, jú, en auðvitað er maður svekktur með stórt tap og mögulega of stórt tap miðað við gang leiksins, en nú horfum við á þetta aftur og þá sjáum við kannski ljósu punktana betur,“ segir Jón Þór.

Skagamenn spila næst við Vestra á heimavelli, og Jón Þór segir markmiðið þá að byrja svipað og þeir gerðu í kvöld, en jafnframt að gera betur og fylgja betur eftir ef Skagamenn ná forystunni. „Við stefnum alltaf á það, að gera betur í næsta leik.“

Jón Gísli Eyland Gíslason rekur hér knöttinn í kvöld.
Jón Gísli Eyland Gíslason rekur hér knöttinn í kvöld. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert