„Man ekki eftir öðru eins“

Stuðningsmenn Leicester ráða sér ekki fyrir kæti þessa dagana.
Stuðningsmenn Leicester ráða sér ekki fyrir kæti þessa dagana. AFP

Nafn Leicester City er á allra vörum um gjörvalla heimsbyggðina eftir að liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í fyrsta sinn.

Rætt er um kraftaverk, eitt mesta afrek í sögu íþróttanna og sigur fótboltans gegn peningaveldinu. Fyrir tímabilið voru líkurnar 1:5.000 hjá veðbönkum að Leicester stæði uppi sem Englandsmeistari en lærisveinum Claudio Ranieri tókst hið ómögulega og annað eins afrek verður ekki unnið í bráð.

Besti árangur Leicester fyrir þetta tímabil var annað sætið árið 1929 og þá vann liðið deildabikarinn árið 2000. Fyrir Claudio Ranieri er sigurinn svo sannarlega sætur, en þessi 64 ára gamli Ítali hefur á löngum þjálfaraferli sínum aldrei unnið meistaratitil og hefur margoft fengið reisupassann hjá þeim félögum sem hann hefur stjórnað, til að mynda hjá Chelsea árið 2004. Þá fór hann með skottið á milli lappanna frá Grikklandi í fyrra eftir tvö töp gegn Færeyingum í undankeppni Evrópumótsins. Það verður sæt hefnd fyrir Ranieri þegar hann snýr aftur á Stamford Bridge þann 15. maí þegar gulldrengirnir hans mæta Chelsea í lokaumferðinni. Þar þurfa leikmenn Chelsea að standa heiðursvörð fyrir Ranieri og lærisveina hans og Roman Abramovich, eigandi Chelsea, á að heiðra manninn sem hann sparkaði í burtu fyrir 12 árum. Nema þá að hann skrópi og mæti ekki á leikinn.

Fékk netta gæsahúð

Tveir Íslendingar hafa spilað með Leicester, Skagamennirnir Arnar Gunnlaugsson (1999-2002) og Jóhannes Karl Guðjónsson (2004-2006).

,,Ég neita því ekki að ég fékk netta gæsahúð þegar ég fékk fréttirnar hjá vallarþulnum um að Leicester væri orðið Englandsmeistari þar sem ég fylgdist með leik KR og Víkings í skítakuldanum í Frostaskjóli. Ég ber hlýjar tilfinningar til Leicester og þetta er ævintýri líkast,“ sagði Jóhannes við Morgunblaðið. Hann kvaddi Leicester með því að vera útnefndur leikmaður ársins hjá félaginu.

Ég var skíthræddur

,,Ég vonaði allan tímann svo innilega að Leicester gæti haldið þetta út og miðað við allt í þessum fótboltaheimi man ég ekki eftir öðru eins ævintýri. Ég var skíthræddur um að Leicester myndi klúðra þessu en þetta öskubuskuævintýri varð að veruleika og þar sem ég hef spilað með liðinu og upplifað allt þetta frábæra fólk í Leicester og ekki síst stuðningsmennina finnst mér þetta algjörlega magnað. Þetta fólk sem hefur unnið fyrir klúbbinn á þetta svo innilega skilið og ég tala nú ekki um alla þessa leikmenn sem spila með liðinu. Vardy-sagan er kapítuli út af fyrir sig og það eru svo margir leikmenn í þessu liði sem var búið að afskrifa og segja að þeir væru ekki nógu góðir til að spila í úrvalsdeildinni. Þar get ég nefnt menn eins og Danny Drinkwater, Danny Simpson og Robert Huth. En þetta sýnir hvað er hægt að gera með því að móta samstillt og gott lið án þess að vera með einhverjar stórstjörnur,“ segir Jóhannes Karl.

Gefur mörgum mikla trú

Leicester hefur aðeins tapað þremur leikjum í deildinni á tímabilinu, tveimur fyrir Arsenal og einum fyrir Liverpool, og á laugardaginn fær Leicester meistarabikarinn afhentan þegar það tekur á móti Everton á King Power-leikvanginum í Leicester.

,,Þessi sigur Leicester gefur svo mörgum mikla trú á hvað hægt er að gera. Nú er deildin hér heima rétt að byrja og hversu asnalegt sem það kann að hljóma gefur þessi titill Leicester öllum leikmönnum og þjálfurum hér heima aukna trú. Þetta eru svo jákvæðar fréttir fyrir fótboltaheiminn,“ segir Jóhannes.

Þegar þú spilaðir með Leicester fyrir áratug hefur varla nokkurn í Leicester órað fyrir því að liðið ætti eftir að enda sem Englandsmeistari?

,,Nei, aldeilis ekki. Þegar ég kvaddi Leicester árið 2006 vorum við í B-deildinni og þá var búið að vera bölvað vesen á félaginu. Leicester hafði fallið tveimur árum áður og það var náð í fullt af gömlum kempum eins og Martin Keown, Dion Dublin og fleiri. Þetta gekk ekki upp og peningarnir kláruðust. Ég var valinn leikmaður ársins þetta tímabil, bæði af félaginu og af leikmönnum, og þegar ég horfi til baka er þetta einn af hápunktunum á ferli mínum sem leikmaður. Ástæðan fyrir því að ég fór eftir þetta tímabil var sú að það var ekkert lengur í boði fyrir mig hjá félaginu. Fjárhagurinn var mjög erfiður og þetta leit ekki vel út. En viðsnúningurinn er hreint frábær og ég er svo glaður fyrir hönd allra sem tengjast þessu frábæra félagi. Allir nema Tottenham-menn héldu með Leicester.“

Sjá allt viðtalið við Jóhannes Karl í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert