Hafnaði boði frá Englandi

Glódís Perla Viggósdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var með tvö tilboð, frá Eskilstuna og ensku félagi, og var bara að meta og skoða þessa möguleika,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, en hún hefur skrifað undir nýjan samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Eskilstuna til eins árs.

Glódís Perla kom til Eskilstuna fyrir tveimur árum eftir að hafa orðið Íslands- og bikarmeistari með Stjörnunni árið 2014. Hún hefur verið lykilmaður hjá Eskilstuna og átt þátt í miklum uppgangi liðsins, og þessi 21 árs gamli miðvörður var í þann mund að semja við Eskilstuna að nýju nú í vetur þegar tilboð barst frá góðu liði í efstu deild Englands.

„Þetta var spennandi kostur og því tók ég mér góðan tíma í að ákveða hvað væri best fyrir mig. Mér skilst að enska deildin sé orðin mjög sterk og það eru komnir meiri peningar í deildina, sem hjálpar til við alla uppbyggingu og gæði deildarinnar,“ segir Glódís. Hún kaus hins vegar að halda kyrru fyrir.

„Mér hefur liðið mjög vel hjá Eskilstuna. Þetta er frábær klúbbur og gott umhverfi, og ég taldi best fyrir mig á þessum tímapunkti að vera þarna áfram. Þarna líður mér vel og hef rými til að þroskast enn meira.“ Ljóst er að þjálfarinn Viktor Eriksson fagnar ákvörðun Glódísar mjög, en forráðamenn Eskilstuna sóttu fast að halda henni í sínum röðum. „Glódís hefur verið mikilvægur leikmaður hjá okkur síðustu tvö ár og við gleðjumst yfir því að hún verði hjá okkur í eitt ár í viðbót,“ er haft eftir Eriksson í fréttatilkynningu frá Eskilstuna.

Nánar um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert