Svíar byrja á sigri í undankeppninni

Viktor Claesson (númer 17) fagnar marki sínu með liðsfélögunum í …
Viktor Claesson (númer 17) fagnar marki sínu með liðsfélögunum í kvöld. AFP

Svíþjóð hóf leik í undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu með 2:1-heimasigri á Rúmeníu í Solna í kvöld. Þá máttu Færeyingar þola 2:1 tap í Möltu á sama tíma þar sem tveir leikmenn FH voru í sviðsljósinu.

Robin Quaison og Viktor Claesson skoruðu mörk Svía í fyrri hálfleik áður en Claudiu Keseru minnkaði muninn fyrir Rúmena eftir hlé en nær komust gestirnir ekki. Í Möltu voru það þeir Kyrian Nwoko og Steve Borg sem skoruðu mörk heimamanna sem léku þó manni færri síðasta hálftímann eftir að Andrei Aigus fékk rautt spjald.

Í stöðunni 1:0 fengu Færeyingar vítaspyrnu og steig FH-ingurinn Brandur Olsen á punktinn en klikkaði. Samherji hans í Hafnarfirðinum, Jákup Ludvig Thomsen, minnkaði svo muninn seint í uppbótartíma en nær komust þeir ekki. Gunnar Nielsen úr FH varði mark Færeyinga, René Joensen úr Grindavík lék á miðjunni, Jákup og Brandur voru fremstu menn liðsins og Kaj Leo i Bartalsstovu, Valsmaður, kom inná sem varamaður í leiknum.

Svíþjóð og Malta eru því á toppi F-riðils eins og er með þrjú stig en Spánverjar fá Norðmenn í heimsókn í lokaleik riðilsins í dag.

Írland vann 1:0 sigur á útivelli gegn Gíbraltar í leik liðanna í D-riðli en Jeff Hendrick, samherji Jóhanns Bergs Guðmundssonar hjá Burnley á Englandi, skoraði sigurmarkið. Írar eru því ásamt Sviss á toppi D-riðils en þar á Danmörk eftir að spila sinn fyrsta leik.

Jákup Thomsen skoraði mark Færeyja í kvöld.
Jákup Thomsen skoraði mark Færeyja í kvöld. mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert