Íslandsmeistarinn fær ekki að mæta Messi

Lionel Messi er að glíma við meiðsli.
Lionel Messi er að glíma við meiðsli. AFP/Chris Arjoon

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi verður ekki með landsliði þjóðar sinnar í vináttuleikjum gegn El Salvador og Kosta Ríka í Bandaríkjunum síðar í þessu mánuði vegna meiðsla.

Messi fór af velli á 51. mínútu í leik Inter Miami gegn Nashville á fimmtudaginn var vegna meiðsla í læri. Hann lék svo ekki með Inter-liðinu gegn DC United á laugardag vegna meiðslanna.

Knattspyrnusamband Argentínu greindi frá í dag að Messi hafi ekki náð að jafna sig á meiðslunum og því neyðst til að draga sig úr hópnum.

Pablo Punyed, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, er í landsliðshópi El Salvador fyrir leikinn gegn Argentínu en nú er ljóst að hann fær ekki að mæta Messi.

Pablo Punyed
Pablo Punyed mbl.is/Óttar Geirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert