Trylltist yfir vítaklúðri Brynjólfs (myndskeið)

Brynjólfur Willumsson fagnar marki með íslenska landsliðinu.
Brynjólfur Willumsson fagnar marki með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

Lýsanda á leik Kristiansund og Tromsö í norsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi var ekki skemmt þegar Brynjólfur Willumsson, sóknarmaður Kristiansund, klúðraði vítaspyrnu í leiknum.

Lýsandinn, sem var á vegum Kristiansund, hafði orð á því að Oskar Sivertsen væri vítaskytta Kristiansund en að Brynjólfur hafi komið því í gegn að fá að taka spyrnuna.

Það fór ekki betur en svo að skot hans fór í stöngina.

„Það er Oskar Sivertsen sem er aðalvítaskyttan. Það er vitað mál og samþykkt alls staðar hjá Kristiansund. Ég held að Willumsson sé að fara að taka hana.

Ég hef sagt að Oskar Sivertsen eigi að taka hana. Þetta lítur þannig út en mér finnst þetta skrítin ákvörðun. Willumsson... í stöngina!“ sagði lýsandinn þegar Brynjólfur brenndi af, og trylltist í kjölfarið.

„Skiptu Willumsson af velli!“

„Nú þurfum við að hætta þessu! Það er Oskar Sivertsen sem er vítaskyttan! Ég skil þetta ekki Amund Skiri [knattspyrnustjóri Kristiansund]!

Skiptu Willumsson af velli þar sem hann stal þessari vítaspyrnu! Hann má fara af velli! Þetta er beinlínis uppreisn!“ hrópaði lýsandinn.

Staðan var 1:0 þegar Brynjólfur brenndi af og reyndust það lokatölur.

Myndskeið af lýsingunni má sjá hér fyrir neðan. Mælt er með því að hafa hljóðið á:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert