Hrafnhildur í sjötta sæti í úrslitum HM

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hrafnhildur Lúthersdóttir var nú rétt í þessu að ljúka úrslitasundi sínu í 100 metra bringusundi á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Kazan í Rússlandi.

Hrafnhildur byrjaði mjög vel en virtist missa dampinn í snúningnum. Hún náði sér hins vegar aftur á strik og kom sjötta í bakkann af átta keppendum á tímanum 1:07,10 mínútum, 1/100 úr sekúndu betur en hún gerði í undanúrslitunum í gær.

Heimakonan Yullya Efimova sigraði á tímanum 1:05,66 mínútum og sló þar við heims- og Ólympíumethafanum Rutu Meilutyte frá Litháen sem varð önnur í bakkann.

Hrafnhildur sló Íslandsmet í greininni í undanrásum í gær þegar hún kom í bakkann á 1:06,87 mínútum og hún var svo áttunda og síðust inn í úrslitin í gærkvöldi. Hún var þar með fyrsta íslenska sundkonan sem kemst í úrslit á HM í 50 metra laug.

Sjá: Hrafnhildur syndir fyrst kvenna í úrslitum HM

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert