Ég hugsa bara um Berlín

Guðni Valur Guðnason.
Guðni Valur Guðnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er eiginlega bara að hugsa um Berlín,“ segir hinn 22 ára gamli Mosfellingur Guðni Valur Guðnason, kringlukastari og ólympíufari. Þó Berlín hafi vissulega upp á margt annað að bjóða þá er þýska höfuðborgin Guðna sérstaklega hugleikin vegna þess að þar fer fram stærsta frjálsíþróttamót ársins, Evrópumeistaramótið, í ágúst.

Guðni vinnur nú að því hörðum höndum að tryggja sér næsta sumar sæti á EM. Hann kveðst afar svekktur yfir því hvernig fór á síðasta ári, þegar hann náði ekki að vinna sér sæti á HM í London, eftir frábært ár 2016 þar sem Guðni keppti bæði á EM í Amsterdam og sjálfum Ólympíuleikunum í Ríó. Besti árangur Guðna í kringlukasti er 63,50 metra kast haustið 2015, en sú vegalengd er einmitt lágmarkið inn á EM í Berlín. Of langt er hins vegar liðið síðan Guðni kastaði svo langt, og þarf hann að ná jafnlöngu eða lengra kasti fyrir 30. júlí:

„Ef ég helst heill heilsu þá tel ég nánast 100% líkur á að ná þessu lágmarki. Ég held að næsta bæting hjá mér verði mjög stór bæting, og ég bíð bara eftir henni,“ segir Guðni.

Guðni er vanur því að þurfa að æfa í kulda og snjó á þessum árstíma, eða „kasta í net“ innanhúss, en í þetta sinn er hann staddur á hlýrri slóðum í New Orleans í Louisiana. Þar hefur Guðni verið í þriggja vikna æfingabúðum, með það í huga að byggja góðan grunn fyrir komandi keppnistímabil.

Ítarlega er rætt við Guðna Val í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert