Á nú allra stærsta safnið

Marit Björgen.
Marit Björgen. AFP

„Ég held að ég þurfi tíma og næði til að átta mig á þessu, líta til baka og sjá hvernig mér tókst þetta. Það er einhvern veginn erfitt að skilja þetta,“ sagði hin norska Marit Bjørgen sem nú er orðin sá íþróttamaður sem unnið hefur flesta verðlaunapeninga í sögu Vetrarólympíuleikanna.

Bjørgen og Maiken Caspersen Falla unnu til bronsverðlauna í sprettboðgöngu í gær, þar sem norska tvíeykið varð á eftir meisturum Bandaríkjanna og silfurliði Svíþjóðar. Þar með hefur Bjørgen unnið til alls 14 verðlauna á Vetrarólympíuleikum. Hún sló með þessu met landa síns, skíðaskotfimikappans Ole Einar Björndalen, sem unnið hefur til 13 verðlauna.

Bjørgen, sem er 37 ára gömul skíðagöngukona, vann sín fyrstu ólympíuverðlaun í Salt Lake City fyrir 16 árum. Hún vann einnig ein verðlaun í Tórínó 2006, þrátt fyrir veikindi, en stimplaði sig svo rækilega inn sem besta skíðagöngukona heims þegar hún vann fimm verðlaun í Vancouver 2010, þar af þrenn gullverðlaun, og hún vann einnig þrenn gullverðlaun í Sochi fyrir fjórum árum. Í Pyeongchang í ár hefur Bjørgen unnið gull í 4x5 km boðgöngu, silfur í skiptigöngu, og brons í bæði 10 km göngu með frjálsri aðferð og sprettboðgöngunni.

Bjørgen getur enn bætt við sig verðlaunum í Pyeongchang því hún keppir í 30 km göngu með hefðbundinni aðferð á sunnudaginn. Hún vann 30 km gönguna í Sochi en þá var keppt með frjálsri aðferð. Bjørgen er einum gullverðlaunum frá því að jafna met Björndalens og Björn Dæhlie yfir flest gull á Vetrarólympíuleikunum, en þeir eiga hvor um sig 8 gullverðlaun í sínu safni. Ef Sumarólympíuleikar eru einnig teknir með í reikninginn er sundkappinn Michael Phelps hins vegar langsigursælastur allra, með 28 verðlaun í sínu safni og þar af 23 gullverðlaun. Sigursælasta konan í ólympíusögunni, og sú eina fyrir ofan Bjørgen, er fimleikakonan Larisa Latynina sem vann 18 verðlaun fyrir Sovétríkin á sínum tíma.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka