Fern verðlaun ÍR í 800 - Kristján Viggó nærri meti

Iðunn Björg Arnaldsdóttir hljóp til sigurs í 800 metra hlaupi …
Iðunn Björg Arnaldsdóttir hljóp til sigurs í 800 metra hlaupi í dag. mbl.is/Stella Andrea

Þó að Aníta Hinriksdóttir sé ekki meðal keppenda á Meistaramótinu í frjálsum íþróttum í Laugardalshöll þá fagnaði ÍR þreföldum sigri í 800 metra hlaupi kvenna. ÍR-ingur vann einnig 800 metra hlaup karla.

Iðunn Björg Arnaldsdóttir vann 800 metra hlaupið á 2:19,84 mínútum. Hún leiddi lest þriggja ÍR-inga en Ingibjörg Sigurðardóttir tók silfur á 2:21,22 mínútum og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir brons á 2:23,35.

Sæmundur Ólafsson vann 800 metra hlaup karla á 1:56,12 mínútu. Hlaupið var jafnt og spennandi nánast til enda en Sæmundur endaði þó rúmum tveimur sekúndum á undan næsta keppanda, Huga Harðarsyni úr Fjölni, sem hljóp á 1:58,21. Daði Arnarson, einnig úr Fjölni, kom rétt þar á eftir á 1:59,02.

Kristján Viggó Sigfinnsson úr Ármanni átti fínar tilraunir við nýtt Íslandsmet í flokki 15 ára og yngri í hástökki. Hann setti núverandi met fyrr í vetur en það er 2,01 metrar. Kristján Viggó reyndi þrívegis við 2,02 metra í dag, eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með 1,94 metra stökki, en felldi rána naumlega í öll skiptin. Jón Gunnar Björnsson og Benjamín Jóhann Johnsen, báðir úr ÍR, komu næstir á eftir með 1,91 metra stökk. Jón Gunnar þurfti færri tilraunir í keppninni og fékk því silfur.

Það var talsverð spenna í langstökki karla þar sem þrír tugþrautarkappar enduðu í efstu sætunum. Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki stökk lengst eða 6,89 metra. Hann var í 2. sæti þar til að hann náði 6,85 metra stökki í fimmtu tilraun, og bætti sig svo enn í lokastökkinu. Ísak Óli Traustason úr UMSS endaði í 2. sæti með 6,75 metra stökki, og Ari Sigþór Eiríksson úr Breiðabliki tók bronsið með 6,72 metra stökki.

Tugþrautarkappinn Ingi Rúnar Kristinsson stökk lengst í langstökkinu í dag.
Tugþrautarkappinn Ingi Rúnar Kristinsson stökk lengst í langstökkinu í dag. mbl.is/Stella Andrea
Kristján Viggó Sigfinnsson varð Íslandsmeistari í hástökki.
Kristján Viggó Sigfinnsson varð Íslandsmeistari í hástökki. mbl.is/Stella Andrea
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert