Koblenz vill líka fá Unni

Unnur Ómarsdóttir í landsleik.
Unnur Ómarsdóttir í landsleik. mbl.is/Ómar

Á skömmum tíma hafa landsliðskonurnar Hildigunnur Einarsdóttir og Birna Berg Haraldsdóttir gengið í raðir þýska handknattleiksfélagsins Koblenz/Weibern, sem féll úr efstu deild í vor. Sú þriðja, Unnur Ómarsdóttir, gæti bæst við eftir að hafa kannað aðstæður hjá félaginu sem ætlar að bjóða henni samning. Einar Rafn Eiðsson, kærasti Unnar, skoðaði sig um hjá Ferndorf sem mun einnig leika í 2. deild.

„Félögin báðu um tveggja vikna frest til að útbúa samning og við eigum von á tilboði í næstu viku. Það þarf hins vegar svolítið mikið að gerast til að við förum út,“ sagði Unnur við Morgunblaðið í gær. Eins og hálfs tíma akstursfjarlægð er á milli staðanna þar sem félögin hafa sína æfingaaðstöðu og Unnur viðurkennir að það yrði þreytandi til lengdar:

„Ég er ekkert rosalega spennt fyrir því að fara út og að við myndum búa sitt á hvorum staðnum, eins og yrði líklega niðurstaðan. Við ætlum samt ekkert að segja nei strax, en við erum með varaplan í smíðum,“ sagði Unnur. Hún lék með Skrim í norsku úrvalsdeildinni í vetur og Einar með Nötteröy.

„Það er bara svo erfitt að finna eitthvað fýsilegt fyrir okkur bæði á svipuðum stað. Það er eiginlega bara á Íslandi þar sem sama félag er með bæði karla- og kvennalið. Þetta tíðkast ekki úti. Þegar við vorum úti í Noregi var eins og hálfs tíma akstur á milli okkar þannig að ég er alveg búin að kynnast því og hef ekki áhuga á að gera þetta þannig áfram,“ sagði Unnur. Því er líklegra en ekki að hún spili hér á landi í vetur, og þá sennilega með Íslands- og bikarmeistaraliði Gróttu. Unnur var markadrottning liðsins á næstsíðustu leiktíð en fylgdist úr fjarlægð með Gróttu vinna sína fyrstu titla í vetur:

„Það var svolítið erfitt í vetur að fylgjast með liðinu vinna allt og geta ekki tekið þátt í þessu. Ég er alveg búin að tala við Gróttu og vonandi gengur það upp að ég fari þangað ef við endum á að vera heima.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert