Vilja fá skot á sig fyrir utan 9 metra

Aron Dagur Pálsson skoraði 6 mörk í kvöld.
Aron Dagur Pálsson skoraði 6 mörk í kvöld. mbl.is/Golli

Aron Dagur Pálsson, leikstjórnandinn efnilegi hjá Gróttu, var markhæstur með 6 mörk í sigri Gróttu á Val á Hlíðarenda í Olís-deildinni í kvöld. 

Auk þess var lék hann fremstur í 5-1 vörn sem Gróttu spilaði ásamt 6-0 í kvöld. Aron tók lítinn þátt í leiknum á móti Fram sem Grótta vann í deildinni á dögunum en hann er að jafna sig af nárameiðslum. 

„Ég er nýkominn úr nárameiðslum. Tognaði í nára. Einnig var smá basl á mér í vikunni út af öxlinni en þegar svona mikilvægur leikur á móti Val er á dagskrá þá er maður með. Við erum með fína breidd í liðinu og aðrir geta lagt mikið af mörkum eins og gerðist á móti Fram. Mér fannst ég vera 100% klár í kvöld og geri ekki ráð fyrir öðru en að spila næsta leik,“ sagði Aron þegar mbl.is ræddi við hann á Hlíðarenda í kvöld. 

Lið Gróttu tekst vel að nýta sér hæðina sem liðið býr yfir og líkamlegan styrk í vörninni. „Já við leggjum upp með að fá andstæðingana til að skjóta fyrir utan. Við erum með það góða markmenn að þeir geta tekið flest öll skot sem koma fyrir utan 9 metrana. Ef það tekst þá vinnum við leiki. Það er alveg klárt,“ sagði Aron Dagur Pálsson í samtali við mbl.is en faðir hans Páll Þórhallsson var atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi um tíma fyrir þá sem ekki þekkja til og lék lengi með Gunnari Andréssyni þjálfara Gróttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert