„Hundfúlt að vinna ekki á heimavelli“

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. mbl.is/Styrmir Kári

Aron Kristjánsson og Janus Daði Smárason voru fremur svekktir þegar mbl.is heyrði í þeim í kvöld eftir fyrri úrslitaleikinn um danska meistaratitilinn í handknattleik þar sem lið þeirra Aalborg gerði jafntefli, 26:26, við Skjern í Álaborg. 

Aalborg, sem einnig teflir fram Arnóri Atlasyni og Stefáni Rafni Sigurmannssyni, var yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:11, en tókst ekki að landa sigri. Seinni úrslitaleikurinn verður á heimavelli Skjern sem teflir fram Tandra Konráðssyni. Geri liðin aftur jafntefli fær Aalborg heimaleik í hreinum úrslitaleik. 

„Jú það eru vonbrigði að vinna ekki heimaleikinn og sérstaklega eins og hann þróaðist. Fyrir úrslitakeppnina þótti Skjern líklegast til að vinna titilinn en mér fannst við spila mjög vel í dag. Við leiddum allan leikinn og spiluðum afar vel í fyrri hálfleik. Skjern spilaði allan seinni hálfleik með sjö menn í sókn. Okkur tókst að komast í 15:11 en gerðum þrenn tæknimistök í röð og þeir komust inn í leikinn með því að minnka muninn niður í 15:14 á mjög stuttum tíma.

Við vorum með yfirhöndina í leiknum en þessi kafli setti smá pressu á okkur. Í seinni hálfleik gerðum við of mörg mistök, bæði tæknimistök en fórum einnig illa með góð færi. Á heildina litið var þetta gríðarlega jafn leikur og alger smáatriði sem gerðu það að verkum að við unnum ekki,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Aalborg, í samtali við mbl.is í kvöld. 

Janus Daði Smárason skoraði 4 mörk fyrir Aalborg í dag og honum þótti eins og Aroni sem Aalborg væri með yfirhöndina í leiknum. 

„Miðað við hvernig mér fannst við spila þá er hundfúlt að vinna ekki á heimavelli. Úr því sem komið var þá er jafnteflið mikilvægt fyrir okkur en Skjern var með boltann þegar um tíu sekúndur voru eftir. Okkur tókst að stela boltanum í maður á mann vörn og skora í lokin,“ sagði Janus og hann sagði stemninguna hafa verið góða á leiknum. 

„Uppselt var á leikinn og áhorfendur voru 5 þúsund. Fólk er farið að mæta tveimur tímum fyrir leik. Þetta er nokkuð stórt, auk þess var geggjað veður í dag og allir í góðu skapi. Í vetur voru oft í kringum 3.500 áhorfendur en í síðustu leikjum finnur maður virkilega fyrir áhorfendum. Skjern er einnig með flotta stuðningsmenn og lætin voru því mikil. Gaman að taka þátt í þessu. Við eigum eftir að vinna í Skjern á tímabilinu og kannski er bara kominn tími á það,“ sagði Janus við mbl.is. 

Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert