Landsliðsmaður í liði umferðarinnar

Viggó Kristjánsson á æfingu íslenska landsliðsins en hann leikur með …
Viggó Kristjánsson á æfingu íslenska landsliðsins en hann leikur með því gegn Eistlandi í Laugardalshöllinni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viggó Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, er í úrvalsliði 31. umferðar þýsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir frammistöðu sína með Leipzig um helgina.

Viggó skoraði tíu mörk þegar Leipzig vann góðan útisigur á Göppingen, 30:27, á föstudagskvöldið.

Hann hefur átt mjög gott tímabil og er sjötti markahæsti leikmaður deildarinnar með 179 mörk í 28 leikjum, tólf mörkum minna en Ómar Ingi Magnússon hjá Magdeburg sem er í fimmta sætinu með 191 mark í 29 leikjum.

Hans Óttar Lindberg, hinn 42 ára gamli íslenskættaði Dani, er líka í úrvalsliði umferðarinnar en hann er sjöundi markahæstur í deildinni í vetur með 176 mörk fyrir Füchse Berlín.

Viggó er í íslenska landsliðinu sem mætir Eistlandi í Laugardalshöllinni í kvöld, í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti á HM 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert