„Við tökum aðeins á því í kvöld“

Esjumennirnir Róbert Freyr Pálsson og Pétur Maack eru Íslandsmeistarar.
Esjumennirnir Róbert Freyr Pálsson og Pétur Maack eru Íslandsmeistarar. mbl.is/Eva Björk

Það var virkilega létt yfir Pétri Maack þegar blaðamaður mbl.is tók hann tali í fagnaðarlátum Esju sem tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íshokkí eftir svakalegan leik við SA Víkinga, en Esja vann þriðja leik einvígisins í vítabráðabana í kvöld.

Pétur var ekki síst sáttur með að geta fagnað titlinum hér á heimavelli, í staðinn fyrir að tryggja titilinn fyrir norðan í fjórða leiknum á þriðjudagskvöld.

„Já, hvað heldurðu. Það er ekkert að gerast fyrir norðan. Við náum okkur niður einhvern tímann á morgun bara – en tökum aðeins á því í kvöld,“ sagði Pétur hinn hressasti. Nú er sannkölluðu draumatímabili lokið hjá Esju, sem vann bæði deildina og rimmuna um Íslandsmeistaratitilinn 3:0.

„Ég vil þakka þetta góðri þjálfun, góðum undirbúningi og góðum hóp. Við erum alveg frábær hópur með frábærri liðsheild, erum ótrúlega góðir vinir og náum vel saman. Ég vil þakka öllum í liðinu fyrir þennan seiglusigur,“ sagði Pétur, og segir Esju sannarlega hafa stigið skref fram á við.

„Ég hef spilað í mjög ungum liðum, en nú erum við orðnir fullorðnir menn að spila fullorðið hokkí. Það sást hérna í úrslitarimmunni,“ sagði Pétur.

Hann er einn af þeim sem er á leið á heimsmeistaramótið með íslenska landsliðinu í Rúmeníu sem hefst í byrjun apríl. Hvernig er að verða liðsfélagi margra af sínum andstæðingum aðeins nokkrum dögum seinna?

„Ég er vanur því að spila harðar úrslitarimmur við fullt af þessum strákum, svo hittumst við viku seinna með landsliðinu og það er bara fínt. Við erum allir vinir utan íssins, ég tek fýluna aldrei út fyrir ísinn,“ sagði Pétur Maack að lokum við mbl.is áður en hann hélt áfram að fagna, en það var ljóst að gleðin var bara rétt að byrja.

Sjá:

Leikmenn Esju fagna af innlifun eftir að titillinn var í …
Leikmenn Esju fagna af innlifun eftir að titillinn var í höfn í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert