Hetja dönsku bikarmeistaranna fagnaði með íslenska fánann í hendi

Aalborg Pirates fagna bikarmeistaratitlinum í Danmörku.
Aalborg Pirates fagna bikarmeistaratitlinum í Danmörku. Ljósmynd/Facebook

Henry Kristófer Harðarson varð um helgina danskur bikarmeistari í íshokkí með liði sínu Aalborg Pirates. Íslendingurinn átti stóran þátt í titlinum með frammistöðu sinni í úrslitaleiknum gegn Rungsted.

Ekki er víst að nafn Henrys, sem fæddur er í Vestmannaeyjum, sé íslensku íþróttaáhugafólki kunnugt en hann fluttist ungur að árum til Kaupmannahafnar og tók snemma þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér í íslensk landslið, heldur aðeins dönsk. Taugarnar til Íslands eru hins vegar sterkar og í umfjöllun danska vefmiðilsins Faceoff.dk um úrslitaleikinn segir að „íslenski víkingurinn“ hafi fagnað bikarmeistaratitlinum með því að veifa íslenska fánanum.

Henry hafði lítið komið við sögu með Álaborgar-liðinu í vetur, skorað 3 mörk og lagt upp 5 í 30 deildarleikjum, en hann naut sviðsljóssins í úrslitaleiknum. Hann var færður úr 4. línu upp í 2. línu vegna meiðsla í liðinu, og skoraði tvö mörk í 5:2-sigri. Hann kom Aalborg fyrst í 1:0 og sá svo um að innsigla sigurinn með síðasta marki leiksins, við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna og liðsfélaga í „Boxinu“ í Herning, þar sem undanúrslit og úrslit fóru fram.

„Jú, þetta var besti leikurinn minn á tímabilinu, það er á hreinu. Ég hef átt svolítið erfitt uppdráttar á tímabilinu en þetta gefur manni vonandi gott sjálfstraust,“ sagði Henry við Faceoff.dk. Þrátt fyrir að hafa búið í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Danmörku segist hann líta á sig sem „hundrað prósent Íslending“.

Nánar er fjallað um Henry í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka