„Einn af mikilvægustu leikjunum“

Þóra Kristín Jónsdóttir hefur verið einn af burðarásunum í ungu …
Þóra Kristín Jónsdóttir hefur verið einn af burðarásunum í ungu liði Hauka í vetur. mbl.is/Golli

Þóra Kristín Jónsdóttir sýndi afar góða frammistöðu þegar Haukar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Grindavík í 22. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta um helgina. Haukar höfðu betur, 56:52, en leikurinn fór fram í Grindavík eins og áður segir.

Þótt lítið hafi verið skorað í leiknum á heildina litið þá var Þóra engu að síður mjög nálægt þrefaldri tvennu. Hún skoraði 11 stig, tók 9 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Vantaði því eitt frákast og eina stoðsendingu en þar er ekki allt upptalið því Þóra náði boltanum sex sinnum af andstæðingunum sem er vel af sér vikið.

„Ég held að þetta hafi verið einn af mikilvægustu leikjunum sem við spilum í vetur. Það var virkilega mikilvægt að vinna þennan leik til að komast lengra frá Grindavík. Úrslitin styrkja okkar stöðu í deildinni,“ sagði Þóra en Haukar eru með 12 stig í næstneðsta sætinu en Grindvíkingar með 6 stig í botnsætinu. Neðsta liðið fellur niður í 1. deild að tímabilinu loknu.

„Þær komust tíu stigum yfir í leiknum en mér fannst við sýna að við vildum ná í sigur. Hjá okkur var ákefðin meiri og mér fannst það hafa mest að segja um að við lönduðum sigri,“ sagði Þóra en hvorugt liðið tefldi fram Bandaríkjamanni.

„Mér fannst bara skemmtilegt að spila án erlends leikmanns en það má örugglega segja að liðin hafi ekki náð að spila af bestu getu þar sem útlendingana vantaði. Mér fannst okkur takast að leysa verkefnið nokkuð vel, sérstaklega vegna þess að Sólrún meiddist líka, sem er ein af okkar reyndustu leikmönnum,“ sagði Þóra en þegar leiknum lauk voru eingöngu eftir leikmenn hjá Haukum sem eru löglegir í unglingaflokki.

Nánar er rætt við Þóru í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert