„Þeir voru betri á okkar heimavelli“

Jón Arnór Sverrisson.
Jón Arnór Sverrisson. mbl.is/Hari

„Annað liðið náði aðeins að stinga af, vörnin var að gera gæfumuninn hjá okkur og þeir ná aldrei að koma til baka eftir að við náum góðri forystu,“ sagði Jón Arnór Sverrisson, leikmaður Njarðvíkur, eftir 85:70-sigur á ÍR í einvígi liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld. Njarðvík er nú búið að vinna fyrstu tvo leikina og getur tryggt sér sæti í undanúrslitunum með því að vinna þriðja leikinn á miðvikudaginn.

„Þegar við spilum hörkuvörn og erum fastir fyrir þá getum við pirrað svona lið. Það vantaði auðvitað Kanann hjá þeim en Matthías [Orri Sigurðarson] var ekki góður, við búumst við honum miklu sterkari í næsta leik,“ bætti Jón Arnór við en Matthías var einn þeirra leikmanna ÍR sem náði sér ekki á strik. Þá voru ÍR-ingar án hins öfluga Kevin Capers sem tók út leikbann í kvöld en Jón Arnór telur ekki að fjarvera hans hafi haft of mikil áhrif á lið ÍR.

„Ég myndi ekki segja það, þeir voru flottir án hans í síðasta leik og jöfnuðu metin þegar hann var ekki með. Þetta er hörkulið án hans.“

Hann bætti svo við að lokum að einvígið væri langt frá því að vera búið. „Við þurfum að klára síðasta heimaleikinn. Þeir voru betri á okkar heimavelli heldur en hér þannig að við þurfum að vera klárir í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert