Stoltur af kvennastarfinu í Njarðvík

Selena Lott keyrir að körfu Keflavíkur.
Selena Lott keyrir að körfu Keflavíkur. mbl.is/Skúli B. Sig

Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur var að stýra sínum síðasta leik í bili að minnsta kosti þegar Njarðvík tapaði úrslitaeinvíginu gegn Keflavík í kvöld. Tapið þýðir að Keflavíkurkonur eru Íslandsmeistarar árið 2024.

Rúnar Ingi tekur nú við karlaliði Njarðvíkur fyrir næsta tímabil.

Við ræddum við Rúnar Inga strax eftir leik.

Hvernig þróaðist þessi leikur í þínum huga?

„Við byrjum ágætlega. Tvö góð lið að berjast og finna nýjar lausnir. Allan fyrsta leikhluta erum við með stjórn á þessu. Síðan kemur fyrsta alvöru áhlaup Keflavíkur þá læddust neikvæðar hugsanir í liðið mitt þrátt fyrir að höfum setta mikinn fókus á að hafa trú á okkur því það er full ástæða til. Síðan tók húsið undir með Keflavík og þá fóru hlutirnir að klikka hjá okkur.

Eftir þetta erum við týndar sóknarlega, hittum ekki úr skotum. Við búum til flott tækifæri en tökum rangar ákvarðanir. Við erum með 23 tapaða bolta og þú vinnur ekkert körfuboltaleiki með þannig tölu."

Þetta var þinn síðasti leikur með kvennalið Njarðvíkur þar sem þú ert að taka við karlaliðinu. Þú væntanlega gengur stoltur frá borði eftir að hafa rifið liðið upp úr lægð og gert meðal annars að Íslandsmeisturum ekki satt?

„Ég er rosalega stoltur af kvennastarfinu í Njarðvíik. Ég byrjaði með frænda mínum Ragnari Ragnarssyni og þá vorum við bara fyrstu deildar lið sem var ekki í toppbaráttu. Við erum klúbbur sem er að búa til frábæra unga leikmenn.

Við erum með tvær stelpur sem eru við að að komast í landsliðið og eru úti í háskólaboltanum. Við eru með upprennandi A-landsliðskonur hérna í liðinu. Það sem ég er stoltastur af er að kvennaliðið er á góðum stað og súrsætt að vera að kveðja eftir þetta einvígi gegn erkifjendunum. Frábærar manneskjur þessir leikmenn sem hafa gert mig að miklu betri þjálfara á þessum árum."

Er komið á hreint hver tekur við af þér með kvennalið Njarðvíkur?

„Já ég held það en það er félagið sem tilkynnir það sjálft."

Nú tekur þú við karlaliðinu. Eru miklar breytingar framundan þar?

„Já auðvitað eitthvað en ég er bara búinn að vera einbeita mér að þessu verkefni með kvennaliðið. Ég ætlaði mér að verða Íslandsmeistari og það gekk ekki eftir. Nú þarf ég aðeins að fá að svekkja mig á því og svo taka næstu verkefni þegar tíminn kemur."

Að lokum sagði Rúnar Ingi þetta:

„Ég er ótrúlega stoltur af öllum körfuboltakonum í Njarðvík og ég mun fylgjast með þeim auðvitað áfram og síðan óska ég Keflavíkurkonum auðvitað til hamingju með titilinn," sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert