Síðasti leikurinn sem ég stýri á ferlinum

Keflavíkurliðið fagnar þar sem glittir í hausinn á Sverri.
Keflavíkurliðið fagnar þar sem glittir í hausinn á Sverri. mbl.is/Skúli B. Sig

Ansi glaður Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur mætti í viðtal hjá mbl.is eftir að kvennalið Keflavíkur vann Njarðvík í Íþróttahúsinu í Keflavík í kvöld og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í 17. sinn.

Við spurðum Sverri Þór út í tímabilið og framhaldið.

Hvernig útskýrir þjálfari svona árangur í lok tímabils?

„Ég fæ mjög góðan hóp upp í hendurnar. Síðan er ég mjög heppinn með leikstjórnandann, Elisu Pinzan. Ástæðan er sú að ég er með mikið af leikmönnum sem skora mikið og þurfa að fá snertingu á boltanum. Það hefði ekki verið heppilegt að vera með leikstjórnanda sem væri alltaf að skora 30 plús stig og alltaf a hanga á boltanum.

Síðan erum við Elentínus (Guðjón Margeirsson) aðstoðarþjálfari búnir að búta til frábæra stemmningu og anda í þessum hópi sem mætti í alvöru spennuleiki og þora að spila og vinna leikina. Stelpurnar mæta bara og leggja sig fram og þora að spila þessa stóru leiki."

Keflavík fagnar.
Keflavík fagnar. mbl.is/Skúli B. Sig

Ef við ræðum þessa seríu. Má ekki segja að þetta úrslitaeinvígi hafi unnist í fyrsta leiknum?

„Jú alveg klárlega. Það var rosalega sterkt að vinna þann leik og koma því síðan í 2:0. Þá eru Njarðvíkurkonur komnar með bakið upp við vegg og þurfa síðan að mæta hingað á völl sem við höfum ekki tapað á í allan vetur."

Verður Sverrir Þór ekki örugglega þjálfari Keflavikur áfram?

„Nei ég býst ekki við því. Ég held að þetta hafi verið síðasti leikur sem ég stjórna á ferlinum."

Það er svoleiðis?

„Já það er svoleiðis. Ég kom frekar óvænt inn í þetta í vetur og ég hef alveg nóg að gera. Ég rek málningarfyrirtæki sem við eigum tveir saman með starfsfólk í vinnu. Ég er bara í málningargallanum 8 tíma á dag og er ekkert að rúnta bara um.

Eins og þetta er gaman þá er þetta alltof langt tímabil. Maður byrjar strax eftir verslunarmannahelgi og núna er að koma júní. Þannig að já ég held þetta hafi verið síðasti leikur sem ég stjórna í meistaraflokki."

Þannig að Sverrir Þór Sverrisson er hættur sem körfuboltaþjálfari?

„Já."

Það er þá varla hægt að hætta með betri hætti en þú gerir hér í kvöld?

„Nei það er fínt að enda þetta með fullu húsi" og þar á Sverrir Þór auðvitað við að hafa unnið alla þá titla sem í boði voru.“

Við óskum Sverri Þór Sverrissyni og Keflavíkurkonum til hamingju með árangurinn á tímabilinu og Sverri óskum við velfarnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert