Erlendir fjárfestar með nýtt hlutafé í Bonus Stores

Eigendur Bonus Stores Inc. hafa samþykkt að stefna að því að auka hlutafé félagsins um sjö milljónir dala, jafnvirði 597 milljóna íslenskra króna. Tryggvi Jónsson, forstjóri Baugur Group, segir að það verði væntanlega einkum Bandaríkjamenn sem koma munu að hlutafjáraukningunni en hún sé í höndum Kaupthing New York.

Eignarhluti Baugur Group niður fyrir helming Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að Baugur Group muni ekki taka þátt í þessari hlutafjáraukningu þar sem ekki liggi fyrir ákvörðun um ráðstöfun hlutar Baugs í Arcadia og vegna frekari fjárfestingar félagsins í sameinuðu félagi Þyrpingar og Stoða. Þá segir að við fyrirhugaða hlutafjáraukningu muni eignarhluti Baugur Group fara niður fyrir 50% og hann verði því ekki hluti af samstæðuuppgjöri frá þeim tíma. Hagnaður Bonus Stores fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBIDTA) nam sextán milljónum króna á tímabilinu 1. mars til 31. maí. Aðspurður segir Tryggvi Jónsson, forstjóri Baugur Group, að það hverjir koma munu að hlutafjáraukningunni sé í höndum Kaupthing New York en gert sé ráð fyrir að það verði einkanlega Bandaríkjamenn. Baugur Invest, sem er 100% í eigu Baugur Group, á 56% í Bonus Stores en aðspurður segir Tryggvi aðra eigendur koma í gegnum Kaupþing og aðila á þeirra vegum. Hann segir að stefnt sé að hlutafjáraukningunni á næstu vikum og mánuðum en það sé gert til þess að flýta umbreytingu á verslunum Bill’s Dollar Stores í Bonus Supercenters. „Þetta er spurning um uppbyggingu á stórmörkuðunum og við erum með fund um miðjan ágúst þar sem teknar verða frekari ákvarðanir um málið.“ Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að Baugur hefur ákveðið að færa framvegis kaupréttarsamninga starfsfólks til gjalda í rekstri Baugur Group en almennt er þetta fært í gegnum eigið fé fyrirtækja. Tryggvi segir að það hafi oft verið gagnrýnt erlendis, sérstaklega í Bandaríkjunum, að færa slíka samninga í gegnum efnahagsreikning en ekki rekstrarreikning. „Nokkur fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa tekið ákvörðun um að gjaldfæra kaupréttinn á rekstur vegna þess að þetta sé einfaldlega ekki annað en hluti af launatengdum kostnaði. Við höfum ákveðið að stíga þetta skref líka þar sem við teljum eðlilegra og heilbrigðara að færa þetta til gjalda eins og annan kostnað vegna starfsmanna. Við teljum líklegt að innan fárra ára verði þetta sú leið sem fyrirtæki fara. Áhrifin af þessari breytingu,“ segir Tryggvi, „eru óveruleg fram að þessu en munu án efa skipta meira máli á komandi árum. Þetta hefur þó þau áhrif að afkoman verður lakari en ella en um leið raunhæfari að okkar mati.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK