Glitnir spáir óbreyttum stýrivöxtum

Greining Glitnis telur að það séu yfirgnæfandi líkur á því að Seðlabanki Íslands ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum í 14,25% á næsta vaxtakvörðunardegi sínum þann 8. febrúar. Spáir Greining Glitnis því að stýrivextir haldist óbreyttir þar til í maí en þá hefjist vaxtalækkunarferli Seðlabankans.

„Á síðasta vaxtaákvörðunardegi bankans 21. desember síðastliðinn hækkaði bankinn vexti sína um 0,25 prósentur og sagði samhliða að hann muni ekki slaka á aðhaldinu fyrr en hann sannfærist um að verðbólguhorfur til langs tíma samrýmist verbólgumarkmiðinu. Bankinn gaf hins vegar ekkert út á hvort vænta mætti frekari vaxtahækkana og var tilkynning hans að því leyti ólík þeim sem fylgt höfðu öðrum ákvörðunum hans um vaxtahækkanir á síðasta ári. Að okkar mati var þetta eitt af því sem benti til að vaxtahækkunarferill bankans væri á enda kominn," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Í Morgunkorninu kemur ennfremur fram að frá vaxtaákvörðun bankans í desember hefur verðbólgan hjaðnað og gengi krónunnar hækkað.

„Aðhaldsstig peningastefnunnar hefur aukist á tímabilinu þar sem raunstýrivextir hafa hækkað. Staðan á vinnumarkaði er nánast óbreytt og vísbendingar um eftirspurn í hagkerfinu benda til þess að hún standi í stað eða dragist aðeins saman. Allt þetta ætti að hvetja bankann til að staldra við með vexti sína í 14,25% og sjá hverju fram vindur fram að þarnæstu vaxtaákvörðun bankans sem verður 29. mars. Við spáum því að bankinn haldi vöxtum sínum óbreyttum fram í maí á þessu ári, hefji þá að lækka vexti nokkuð hratt og verði kominn með stýrivexti sína í 11,5% í lok árs," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK