Hagnaður Glitnis 38,2 milljarðar króna

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis kynnti afkomu bankans fyrir fjárfestum
Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis kynnti afkomu bankans fyrir fjárfestum mbl.is/Brynjar Gauti

Hagnaður Glitnis nam 38,2 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 18,9 milljarða króna hagnað árið 2005. Er þetta aukning um 102% milli ára. Hagnaður Glitnis á fjórða ársfjórðungi nam 9,3 milljörðum króna.

Hagnaður fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 11,6 milljörðum, samanborið við 10,4 milljarða á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður fyrir skatta var 46,3 milljarðar árið 2006, samanborið við 23,1 milljarð 2005.

Stjórn bankans hefur ákveðið að greiða starfsfólki kaupauka í formi 7000 hluta í bankanum á verðinu 25,5 króna á hlut miðað við fullt starf. Svarar þetta til 178.500 króna.

Þá hefur stjórn bankans ákveðið að leggja til að greiddur verði 0,66 króna arður á hvern hlut, eða 24,63% af hagnaði ársins.

45% af hagnaði Glitnis kemur erlendis frá

Árið 2006 myndaðist 45% af hagnaði bankans fyrir skatta af starfsemi utan Íslands eða 20,7 milljarðar af 46,3 milljörðum.

Hreinar vaxtatekjur á fjórða ársfjórðungi voru 8,4 milljarðar og höfðu aukist um 37% samanborið við 4. ársfjórðung 2005 þegar þær námu 6,1 milljarði. Hreinar vaxtatekjur voru 9,3 milljarðar á þriðja ársfjórðungi árið 2006. Hreinar vaxtatekjur voru 37,1 milljarður árið 2006, samanborið við 22,4 milljarða árið 2005.

Þóknanatekjur á fjórða ársfjórðungi 2006 námu 10,3 milljörðum og jukust úr 2,9 milljörðum á fjórða ársfjórðungi árið 2005. Þóknanatekjur voru 5 milljarðar á þriðja ársfjórðungi 2006. Þóknanatekjur námu 26,5 milljörðum árið 2006, samanborið við 8,8 milljarða 2005.

Í tilkynningu kemur fram að hagnaður á hlut var 0,64 krónur á fjórðungnum og 2,68 krónur á árinu öllu.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta á ársgrundvelli var 39,4% en var 30% árið 2005. Arðsemi eiginfjár eftir skatta án gengishagnaðar á ársgrundvelli var 34%.

Heildareignir jukust um 774 milljarða króna á árinu, eða 53%, í 2.246 milljarða. Þar af námu lán til annarra en lánastofnana 1.583 milljörðum króna og höfðu aukist um 484 milljarða eða 44%. Vöxturinn endurspeglar að hluta til gengislækkun íslensku krónunnar, samkvæmt tilkynningu frá Glitni. Ef frá eru talin áhrif þeirrar lækkunar er vöxturinn 20% árið 2006 og 7% á fjórða ársfjórðungi árið 2006.

Alþjóðleg skuldabréfaútgáfa nam um 4,9 milljörðum evra árið 2006 samanborið við 6,0 milljarða evra árið 2005. Innlán sem bankinn hóf að taka við í Bretlandi í október námu 45 milljörðum króna í árslok. Um er að ræða heildsöluinnlán til allt að þriggja ára.

Eignir í stýringu jukust um 42% á árinu 2006 og eru 490 milljarðar króna.

Glitni gert að greiða 589 milljónir í viðbótarálagningu skatta

Viðbótarálagning skatta á fjórða ársfjórðungi nam 589 milljónum króna. Álagningin stafar af mismunandi túlkun Glitnis og skattayfirvalda á reglum um skattalegan samruna í tengslum við samruna við Framtak fjárfestingarbanka árið 2004. Glitnir mun áfrýja ákvörðuninni, að því er segir í tilkynningu.

Eigið fé jókst um 73% frá árslokum 2005 og nam 146,1 milljarði króna í lok desember. Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 15,0%, þar af A-hluti 10,8%.

Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, segir í tilkynningu. „Árið 2006 var það besta í sögu bankans. Hagnaður eftir skatta tvöfaldaðist frá árinu 2005 sem þó var metár. Öll afkomusvið skiluðu mjög góðum hagnaði sem sýnir hve sterkar stoðir bankans eru. Á árinu hélt vöxtur bankans áfram með samblandi af innri vexti og yfirtökum sem falla að stefnu hans.

Afkoman einkenndist af afburðargóðum vexti þóknanatekna, en þær meira en þrefaldast á milli ára. Á fjórða ársfjórðungi voru þóknanatekjur í fyrsta sinn hærri en hreinar vaxtatekjur sem undirstrikar þær breytingar sem urðu á samsetningu tekna á árinu 2006. Starfsfólk bankans hefur enn einu sinni sýnt frábæra frammistöðu og hluthafar hafa veitt mikinn stuðning á árinu. Þessi niðurstaða leggur grunninn að áframhaldandi þróun og vexti í samræmi við stefnu bankans.”

Tilkynning Glitnis

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK