Hrein eign lífeyrissjóðanna 1.797 milljarðar

Peningar.
Peningar. mbl.is/Golli

Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.797 milljarðar krón í lok janúar síðastliðins og jókst um 11 milljarða króna í mánuðinum skv. tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Það jafngildir um 0,6% aukningu frá fyrri mánuði, samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar af jókst innlend verðbréfaeign um 16,7 ma.kr. en erlend verðbréfaeign dróst saman um 5,9 ma. kr. Ríkisbréfaeign sjóðanna jókst um 7,7 ma. kr. í janúar og íbúðabréfaeign þeirra jókst um 8,4 ma. kr. sem gæti endurspeglað hækkun á verðlagi undir lok síðasta árs eða kaup lífeyrissjóða á íbúðabréfum. 

„Í lok janúar 2010 hafði hrein eign lífeyrissjóðanna hækkað um 242 ma.kr. frá sama tíma fyrir ári, sem jafngildir hækkun upp á 15,5% að nafnvirði. Sé tekið tillit til verðbólgu nemur hækkunin 8,4%. Þar verður þó að hafa í huga að iðgjaldagreiðslur inn í lífeyrissjóði eru til muna hærri en lífeyrisgreiðslur og útflæði vegna innlausnar séreignarsparnaðar.

Raunávöxtun sjóðanna er því mun minni en framangreind tala gefur til kynna. Þrátt fyrir þau miklu áföll sem dunið hafa á í íslensku hagkerfi eru lífeyrissjóðirnir enn ótrúlega stórir og nam hrein eign þeirra nú í lok janúar 120% af vergri landsframleiðslu síðasta árs.

Þá hefur hrein eign sjóðanna aðeins dregist saman um 10% að raunvirði frá því fyrir hrun. Þó ber að hafa í huga að enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi endanlegt tap sjóðanna af fyrirtækjaskuldabréfum og fleiri eignum í kjölfar bankahrunsins.

Liggur því nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK