1,2 milljarða hagnaður VÍS

Hagnaður af rekstri Vátryggingafélags Íslands nam 1164 milljónum króna eftir skatta á árinu 2009 samanborið við 241 milljónar króna hagnað á árinu 2008. Hagnaður af vátryggingarekstri nam 604 milljónum króna og hagnaður af fjármálastarfsemi nam 668 milljónum króna.

Iðgjöld jukust um 15% á milli ára og námu iðgjaldatekjur tæplega 14 milljörðum króna. Á sama tímabili jukust tjón um 12% og nam tjónakostnaður um 12 milljörðum króna á árinu 2009. 

Eignir VÍS námu tæpum 34 milljörðum króna í árslok 2009 og eigið fé var nær 11 milljarðar króna.  Eiginfjárhlutfall VÍS í árslok 2009 var 32% og gjaldþol var 4,2 sinnum hærra en lágmarksgjaldþol.  Handbært fé í árslok var rúmlega 6 milljarðar króna. 

Fram kemur í tilkynningu, að í lok árs 2009 átti VÍS ríkistryggð verðbréf og bankainnstæður fyrir tæpa 17 milljarða króna eða sem svarar til 75% af allri vátryggingaskuld félagsins. Á undanförnum árum hafi markvisst verið dregið úr áhættu í eignasafni félagsins. Vátryggingaskuld VÍS nam í árslok tæpum 22 milljörðum króna en heildareignir félagsins námu tæpum 34 milljörðum króna. 

Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, segir í tilkynningunni, að það séu fyrst og fremst aðhald í rekstri og varfærin fjárfestingarstefna sem tryggi viðunandi afkomu félagsins. Það valdi hins vegar áhyggjum hve mjög innbrotum og íkveikjum fjölgaði á árinu 2009 og vafalaust megi rekja þetta að einhverju leyti til erfiðleikanna í þjóðfélaginu. Það sem af er þessu ári virðist þessi þróun síst vera í rénum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK