Glitnir sinnti ekki skyldum gagnvart Baugi

Mosaic Fashions var skráð í Kauphöll Íslands.
Mosaic Fashions var skráð í Kauphöll Íslands. mbl.is/Þorkell

Glitnir banki framfylgdi ekki ákvæðum lánasamnings, sem gerður var við Baug Group, en lánið var tryggt með veði í hlutabréfum Baugs í Mosaic Fashions. Kemur þetta fram í skýrslu, sem unnin var fyrir embætti sérstaks saksóknara, sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Segir þar jafnframt að svo virðist sem Glitnir hafi tekið þátt í því að halda uppi virði hlutabréfa Mosiac til að blása upp virði veðsins og koma í veg fyrir veðkall.

Í október 2005 lánaði Glitnir Baugi um 53,9 milljónir evra gegn veði í áðurnefndum hlutabréfum. Átti lánið að nýtast til að greiða upp eldra peningamarkaðslán.

Lánið var kúlulán og átti að greiðast þremur árum seinna, eða í október 2008. Veðið voru hlutabréf í Mosaic að nafnvirði 387,7 milljónir króna. Í lánasamningi segir að fari virði veðsins undir 140 prósent af virði lánsins fái Baugur tvær vikur til að auka virði veðsins eða greiða af láninu. Ef virði veðsins færi undir 125 prósent hefði Baugur þrjá daga til að koma virðinu aftur upp í 140 prósent.

Gerðu ekki veðkall

Átti Glitnir sjálfur að meta virði veðsins og sjá um að ákvæðum lánasamningsins væri fylgt. Í skýrslunni segir að þegar Baugi er veitt lánið hafi virði veðsins verið um 7,4 milljarðar króna, eða um 185 prósent af virði lánsins, sem var um 4 milljarða króna virði.

Lánið hækkaði hins vegar á sama tíma og hlutabréfaverð Mosaic lækkaði og strax árið 2006 var virði veðsins komið í 5,8 milljarða en lánið stóð í 5,3 milljörðum. Hlutfallið, sem átti samkvæmt samningnum alls ekki að fara undir 120 prósent, var því um mitt ár 2006 komið í 109 prósent. Þegar líða tók á árið 2007 lækkaði gengi Mosaic enn frekar. Ekki er að sjá í skýrslunni að Glitnir hafi nokkurn tímann gert veðkall á Baug vegna þessa. Bankinn tók hins vegar þátt í yfirtökunni á Mosaic þegar fyrirtækið var afskráð og keypti 3 prósent af hlutabréfum Mosaic á genginu 17,5. Eftir það var virði eignar Baugs í Mosaic, og þar með virði veðsins, ekki lækkaði í bókum Glitnis.

Segir í skýrslunni að svo virðist sem Glitnir hafi lagt sig fram um að koma í veg fyrir virðislækkun á Mosaic og með brögðum hjálpað Baugi að viðhalda virði veðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK