Seðlabankinn spáir 3,4% hagvexti

Hagvöxtur næstu missera verður drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum …
Hagvöxtur næstu missera verður drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum einkaneyslu og fjárfestingu einkaaðila, og útflutningi. mbl.is/Ómar

Þrátt fyrir að landsframleiðsla hafi staðið í stað á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og verið töluvert undir því sem Seðlabanki Íslands hafði spáð í maí telur bankinn ekki talið tilefni til að gera miklar breytingar á hagvaxtarspánni sinni fyrir árið í heild.

Hann spáir nú 3,4% hagvexti á árinu í heild, sem er 0,3 prósentum minni hagvöxtur en spáð var í maí, en svipaður vöxtur og mældist á síðasta ári, að því er fram kemur í Peningamálum bankans.

Líkt og í maíspánni er gert ráð fyrir að hagvöxtur aukist enn frekar á næsta ári og verði um 3,9% en þá fer saman kröftugur vöxtur einkaneyslu og töluverður þungi í fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Bankinn spáir því að heldur muni hægjast á hagvexti árið 2016, en hann verði þó áfram kröftugur, eða 2,8%.

„Sem fyrr segir verður hagvöxtur næstu missera drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum einkaneyslu og fjárfestingu einkaaðila, og útflutningi. Gert er ráð fyrir að þjóðarútgjöld vaxi um 5,5% á ári á spátímanum og að útflutningur aukist um ríflega 3% á ári að meðaltali á þessu og næstu tveimur árum.

Á móti því vegur að áætlað er að innflutningur fari einnig vaxandi þótt búist sé við að aukning hans verði nokkru minni á næsta ári en á þessu ári. Framlag utanríkisviðskipta batnar því milli ára en verður áfram neikvætt á öllum spátímanum,“ segir í Peningamálum.

Gangi spá Seðlabankans eftir verður meðalhagvöxtur á ári um 3,4% á spátímanum, þ.e.a.s. vel yfir 2,7% meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og langt yfir spám um 2,2% meðalhagvöxt á spátímanum í helstu viðskiptalöndum Íslands.

Sjá fréttir mbl.is:

Óbreyttir vextir í 21 mánuð

Keypt gjaldeyri fyrir 61 milljarð

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK